Árásin á Bodø

Bodø logar 27. maí 1940. Af rúmlega 6.000 íbúum bæjarins …
Bodø logar 27. maí 1940. Af rúmlega 6.000 íbúum bæjarins létust aðeins 13 auk tveggja breskra hermanna þar sem allir nema um 1.500 íbúar höfðu verið fluttir úr bænum á elleftu stundu. Ljósmyndari óþekktur

Bærinn Bodø í Nordland í Norður-Noregi var í fyrstu ekki álitinn sérstaklega hernaðarlega mikilvægur í kjölfar innrásar Þjóðverja í Noreg 9. apríl 1940. Innrásarherinn gerði enga tilraun til að leggja undir sig þetta rúmlega 6.000 íbúa byggðarlag þar sem sjósóknin var helsta lífæðin. Þýskar sprengjuflugvélar gerðu af og til minni háttar loftárásir á bæinn auk þess sem þýskar orrustuvélar réðust á tvo flugbáta konunglega breska flughersins RAF 5. maí, en þá höfðu Bretar hafið framkvæmdir við flugbraut rétt utan við Bodø með aðstoð bæjarbúa.

Fimm breskir hermenn fórust svo og fleiri særðust í loftárás á Rensåsen 22. maí, en þá var Þjóðverjum orðið ljóst að Bretar ætluðu sér ekki að hverfa frá Bodø bardagalaust.

Létu þýskar sprengjuflugsveitir því til skarar skríða mánudaginn 27. maí 1940, fyrir réttum 80 árum. Daginn áður höfðu Bretar lokið við smíði flugbrautar sinnar, sem að mestu var gerð úr timburplönkum, og til Bodø voru komnar þrjár Gladiator-orrustuvélar á vegum RAF.

70 tonn af sprengjum

Fyrsta skotmark þýsku sprengjuvélanna, sem svifu inn yfir Bodø klukkan átta að morgni dags, var radíómiðunarstöðin á Bodøsjøen, um þrjá kílómetra frá miðbæ Bodø, auk þess sem þeim tókst að eyðileggja eina af bresku Gladiator-vélunum.

Meginatlagan var þó gerð milli klukkan sex og hálfníu að kvöldi dags og hafði þá bærinn verið rýmdur að mestu leyti, aðeins 1.500 af 6.283 íbúum hans voru innan bæjarmarkanna sem gerði það að verkum að ekki fleiri en 15 manns létust, þar af tveir breskir hermenn, þegar 37 þýskar sprengjuflugvélar gerðu atlögu númer tvö, annars vegar svokallaðar steypiflugvélar af gerðinni Junkers Ju 87, sem þekktari voru undir viðurnefninu Stuka í síðari heimsstyrjöldinni, af þýska hugtakinu Sturzkampfflugzeug, eða steypiflugvél, og hins vegar Heinkel He 111-vélar, sem áttu eftir að leika stórt hlutverk í orrustunni um Bretland sem hófst 10. júlí þetta ár og stóð fram í október.

Íbúar Bodø taka til við hreinsun bæjarins eftir að 429 …
Íbúar Bodø taka til við hreinsun bæjarins eftir að 429 af 760 húsum hans annaðhvort brunnu til grunna, voru jöfnuð við jörðu eða urðu á annan hátt óíbúðarhæf. Meira en helmingur bæjarbúa varð heimilislaus á tveimur klukkustundum, 3.700 manns. Ljósmynd/Stríðsminjasafn Bodø/Bodø Krigshistoriske Museum

Sprengjusveitin lagði stóra hluta Bodø gjörsamlega í rústir á rúmum tveimur klukkustundum með samtals á þrettánda hundrað sprengjum sem vógu allt í allt 70 tonn. Af 760 húsum í bænum brunnu 429 annaðhvort til grunna, voru jöfnuð við jörðu eða ónothæf eftir árásina og urðu 3.700 manns án heimilis í einu vetfangi, meira en helmingur bæjarbúa.

Þýskir hermenn á reiðhjólum

Linda Helén Haukland, sagnfræðingur og fylkisráðsmaður í Nordland fyrir Kristilega þjóðarflokkinn, skrifaði árið 2012 bókina Hverdag i ruinene eða Hvunndagur í rústunum um árásina á Bodø. „Bæjarbúar vissu að þeir mættu búast við loftárás,“ segir Haukland við norska ríkisútvarpið NRK og bætir því við að mannfall hefði orðið miklu meira hefðu flestir bæjarbúar ekki verið fluttir út fyrir bæjarmörkin áður en síðari árásin var gerð.

„Sagt var að venjulega hefði Bodø einkennst af miklum fuglasöng en að hann hefði þagnað algjörlega eftir þetta,“ segir Haukland.

Fyrsta júní, fimm dögum eftir loftárásina, komu svo þýskir hermenn og yfirtóku bæinn. Þeir voru ekki margir, 28 manna lið á reiðhjólum, og ekki sló í brýnu þar sem 4.000 manna lið norskra og breskra hermanna hafði verið flutt á brott.

Fljótlega fjölgaði í liði Þjóðverja og urðu þeir brátt jafnmargir bæjarbúum, um 6.000. Með Þjóðverjunum fylgdu 6.000 stríðsfangar svo íbúatala Bodø þrefaldaðist á skömmum tíma og varð 18.000 manns. Nú búa þar um 55.000.

Létust í fangabúðum

Þessari miklu fjölgun snemmsumars 1940 fylgdi gríðarleg húsnæðisekla og var þegar hafist handa við að reisa hús í bænum. Munaði þar miklu um framlag sænska Rauða krossins sem sendi fjölda tilbúinna einingahúsa til Bodø sem aðeins þyrfti að setja saman.

Bodø tveimur árum eftir loftárásina, árið 1942. Sænski Rauði krossinn …
Bodø tveimur árum eftir loftárásina, árið 1942. Sænski Rauði krossinn sendi fjölda tilbúinna einingahúsa til Bodø til að vinna bug á mestu húsnæðiseklunni en bæjarbúum fjölgaði úr 6.000 í 18.000 á skömmum tíma með þýsku herliði og fjölda stríðsfanga sem margir hverjir létust í fangabúðum umhverfis Bodø við kröpp kjör. Ljósmynd/Wikipedia.org

Þau fimm ár sem Noregur sætti hernámi Þjóðverja risu nokkrar fangabúðir umhverfis Bodø sem geymdu meðal annars sovéska stríðsfanga sem margir hverjir létust úr kulda og vosbúð í fangavistinni. Fangar frá Úkraínu voru látnir byggja stærstu fiskvinnslustöð sem þá fannst í Noregi, aðrir þræluðu í stórri múrsteinsverksmiðju þar sem framleiddir voru 40 til 50 þúsund múrsteinar viku hverja.

Fjöldi þýskra neðanjarðarloftvarnabyrgja er enn í Bodø og hafa sum hús bæjarins verið byggð ofan á þeim þannig að byrgin eru hluti af kjallararými húsanna.

NRK

Avisa Nordland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert