Hvernig þjálfun fengu þessir menn?

Handtökuaðferðir lögreglumanna í Minneapolis sem drógu George Floyd til dauða á mánudaginn hafa vakið gríðarlega reiði í Bandaríkjunum. Jón Viðar Arnþórsson, sem hefur réttindi til að kenna lögreglu- og sérsveitarmönnum handtökuaðferðir, segir aðferðirnar hvergi viðurkenndar og furðar sig á því hvernig lögreglumennirnir hafi yfir höfuð komist í lögregluna, fáfræðin sé svo augljós.

„Miðað við handtöku og miðað við það sem lögreglan á að gera og fylgja þá er þetta langt út fyrir þann ramma sem þeir hafa,“ segir Jón Viðar. Með ólíkindum sé að lögreglumaðurinn hafi ekki áttað sig á afleiðingunum af því að öll líkamsþyngd hans hvíldi á hálsi Floyd. Í myndskeiðinu hér að ofan er rætt við Jón Viðar um atvikið.

Atvikið hefur vakið sterk viðbrögð í Bandaríkjunum og ekki síst í Minnesota-ríki þar sem fólk hefur safnast saman og mótmælt ofbeldi lögreglunnar gagnvart svörtu fólk á götum úti. 

Á myndbandi vegfaranda af atvikinu sést vel þegar fólk reyndi margoft að tala um fyrir lögreglumanninum og biðla til hans að færa sig af Floyd sem jafnframt sagði ítrekað að hann gæti ekki andað og grátbað lögreglumanninn að fara af hálsinum á sér. „Ég get ekki andað, mér er illt í maganum, mér er illt í hálsinum. Mér er illt alls staðar,“ sagði Floyd skömmu áður en hann féll í yfirlið og sjúkrflutningamenn komu og sóttu hann.

Forsetaframbjóðandi demókrata Joe Biden fordæmdi atvikið á Twitter og sagði Floyd hafa átt betra skilið en atvikið þykir minna óþægilega mikið á þegar Eric Garner, sem einnig var svartur, lést árið 2014 eftir að lögreglumaður þrengdi að öndunarvegi hans þar til að hann lést.

Jacob Frey, borgarstjóri í Minneapolis, hefur einnig fordæmt atvikið opinberlega og fjórum lögreglumönnum hefur þegar verið vikið úr starfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert