Kolkrabbi á 7 kílómetra dýpi

Mynd sem náðist af Dumbókolkrabba á sjö kílómetra dýpi.
Mynd sem náðist af Dumbókolkrabba á sjö kílómetra dýpi.

Myndir hafa náðst af kolkrabba á botni Indlandshafs á sjö kílómetra dýpi. Er þetta tveimur kílómetrum dýpra en áður hefur verið vitað til að þessar skepnur gætu hafst við á.

Vísindamenn sem skrifa grein um þetta í tímaritið Marine Biology segja að kolkrabbinn sé af tegund sem kennd er við Dúmbó, fílinn fljúgandi í teiknimyndum Disneys, vegna þess að flaksandi uggar ofan við augun minna á eyrun á Dúmbó.

Sá sem stýrði rannsókninni, Alan Jamieson, hefur sérhæft sig í rannsóknum á miklu dýpi. Hann notast við ramma, hlaðna mælitækjum, sem varpað er í sjóinn úr rannsóknarskipum. Rammarnir lenda á botninum og skrásetja og taka myndir af lífverum sem fara framhjá.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, að Jamieson hafi náð myndum af tveimur kolkröbbum, öðrum á 5.769 metra dýpi og hinum á 6.957 metra dýpi. Kolkrabbarnir voru tæplega hálfur metri að lengd.

Leifar af kolkröbbum og egg þeirra hafa áður fundist á miklu dýpi, en fyrir hálfri öld náðist mynd af kolkrabba á 5.145 metra dýpi undan ströndum Barbados.

BBC hefur eftir Jamieson að dýr sem hafist við á svona miklu dýpi þurfi að laga sig að aðstæðum með sérstökum hætti svo að frumurnar í líkama þeirra standist hinn gífurlega þrýsting sem þar er.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert