Svona mismunar kerfið svörtum Bandaríkjamönnum

Brotin eftirmynd frelsisstyttunnar eftir að brotist var inn í minjagripaverslun …
Brotin eftirmynd frelsisstyttunnar eftir að brotist var inn í minjagripaverslun í mótmælunum. AFP

Dauði George Floyd í haldi bandarísku lögreglunnar kom af stað mótmælaöldu í mörgum ríkjum Bandaríkjanna, en það var þó aðeins neistinn sem kveikti bálið, enda hafa svartir Bandaríkjamenn lengi þurft að sitja undir ofbeldi af hálfu lögreglunnar og verið misrétti beittir innan bandarísks réttarkerfis.

Breska ríkisútvarpið hefur tekið saman tölfræði um reynslu Bandaríkjamanna af afrískum uppruna í samskiptum við lögregluna, en hún sýnir að svartir eru mun líklegri til að verða skotnir til bana af lögreglu, handteknir vegna misnotkunar fíkniefna og til þess að lenda í fangelsi en Bandaríkjamenn af öðrum kynþætti.

Rúmlega þúsund Bandaríkjamenn létust eftir að hafa verið skotnir af lögreglu í Bandaríkjunum á síðasta ári. Af þeim voru 23,4% svartir, þrátt fyrir að svartir telji einungis um 13,4% af öllum íbúum Bandaríkjanna. Til samanburðar telja hvítir 60,4% af íbúum Bandaríkjanna, en fórnarlömb skota lögreglu voru hvít í 36,8% tilfella. 

Kona stendur fyrir framan lögreglumenn í miðborg Las Vegas í …
Kona stendur fyrir framan lögreglumenn í miðborg Las Vegas í gær, en þar fór fram samstöðufundur á vegum samtakanna Black lives matter þar sem lögregluofbeldi var mótmælt og George Floyd minnst . AFP

Þá voru um 750 af hverjum 100 þúsund svörtum Bandaríkjamönnum handteknir vegna fíkniefna á árinu 2018, til samanburðar við aðeins 350 af hverjum 100 þúsund hvítum Bandaríkjamönnum, þrátt fyrir að Bandaríkjamenn af báðum kynþáttum noti fíkniefni í sambærilegu magni.

Lögreglumaður í New York í Bandaríkjunum heldur á kylfu fyrir …
Lögreglumaður í New York í Bandaríkjunum heldur á kylfu fyrir framan verslun á Broadway í gær. AFP

Loks eru svartir Bandaríkjamenn fimm sinnum líklegri til þess að lenda í fangelsi en hvítir, og næstum tvöfalt líklegri en Bandaríkjamenn af spænskum ættum.

Kort/BBC
Kort/BBC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert