Endurnefndi veginn „Black Lives Matter Plaza“

Borgarstjóri Washington, Muriel E. Bowser, tilkynnti á föstudag að vegurinn fyrir utan Hvíta húsið verði endurnefndur „Black Lives Matter Plaza,“ en Black Lives Matter, svört líf skipta máli, hefur verið slagorð mótmælenda gegn kynþáttafordómum og lögregluofbeldi gagnvart svörtum Bandaríkjamönnum síðustu árin. 

Washington Post greinir frá því að ákvörðun Bowser sendi skýr skilaboð, bæði til stuðnings mótmælendum en einnig gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta. 

Mótmæli vegna lögregluofbeldis í Bandaríkjunum héldu áfram í gær, áttunda daginn í röð. Lögreglan í höfuðborginni Washington hefur bannað bílaumferð í stórum hluta miðborgarinnar frá og með deginum í dag, vegna fyrirhugaðra mótmæla í kvöld. 

Black Lives Matter Plaza.
Black Lives Matter Plaza. AFP

Reyndi að egna friðsama mótmælendur 

Í gærkvöldi var hvítur karlmaður handtekinn fyrir að reyna að egna friðsama mótmælendur á Black Lives Matter Plaza. Hópur mótmælenda hópaðist að manninum þangað til Jordan Atwater, 26 ára, gekk á milli mannsins og mótmælendanna. 

„Hann er ekki kominn til þess að læra neitt. Hann er kominn út af heimsku, leyfið honum að vera heimskur,“ sagði Atwater við mótmælendurna. 

Þá sneri hópurinn sér aftur að mótmælunum þangað til maðurinn greip síma eins mótmælanda, kastaði honum í jörðina og lamdi viðkomandi. Maðurinn hljóp síðan af vettvangi og hópur fólks á eftir honum þar til maðurinn fann lögregluþjóna. Lögreglan handtók manninn og flutti hann af vettvangi. 

„Hann byrjaði bara að espa fólk upp, sagði að við værum að eyðileggja landið, að við værum ofbeldisfull og svona. Svo við sögðum fólki bara að einbeita sér að málefninu, að hundsa hann og yfirgnæfa hann. Hann hélt bara áfram að reyna og reyna. Hann var að reyna að fá einhvern til að berja sig,“ segir Atwater í samtali við Washington Post. 

„Hann var að reyna að byrja eitthvað uppþot og fá það til að líta út fyrir að við værum gerendurnir, segja lögreglunni að við höfðum verið með læti. En sem betur fer vorum við með myndbandsupptöku og svona.“

Frá mótmælunum í Washington í gær.
Frá mótmælunum í Washington í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert