Stefnir í gríðarlegan fjölda

Mótmælendur streyma að Hvíta húsinu og á fleiri staði í höfuðborg Bandaríkjanna til að taka þátt í mótmælum gegn rasisma og ofbeldi af hálfu lögreglu. Talið er að mótmælin í Washington verði jafnvel þau fjölmennustu í sögu borgarinnar. Víða um heim hefur fólk komið saman og sýnt samstöðu með svörtu fólki og þeirri mismunun sem það verður fyrir.

Í London var gríðarlegur fjöldi saman kominn í miðborginni til að sýna Black Lives Matter hreyfingunni stuðning þrátt fyrir að ríkisstjórn Bretlands hafi beðið fólk um að forðast fjölmenni vegna kórónuveirunnar og hættunnar á smiti.

Í Bandaríkjunum hefur verið mótmælt daglega allt frá því að svartur maður, George Floyd, var drepinn af lögregluþjóni við handtöku í Minneapolis. 

Lögregla er með mikinn viðbúnað í Washington og hefur svartri víggirðingu verið komið upp í kringum bústað forsetans. Fastlega er gert ráð fyrir að tugþúsundir taki þátt í mótmælunum en mjög gott veður er í borginni og sólríkt. 

Jafnvel er búist við að enn fleiri taki þátt í mótmælum við Lincoln minnismerkið þar sem mótmælendur eru farnir að safnast saman við minnismerkið um baráttumanninn Mart­in Lut­her King. Eins verður mótmælt í New York, Miami og Minneapolis þar sem Floyd var drepinn 25. maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert