Skotin er hún reyndi að fjarlægja nasistafána

Samkvæmt lögreglustjóranum Jody Helm fannst konan ofan í skurði með …
Samkvæmt lögreglustjóranum Jody Helm fannst konan ofan í skurði með sex skotsár á bakinu. AFP

Bandarísk kona var skotin sex sinnum þegar hún reyndi að fjarlægja nasistafána úr garði manns í Oklahoma. Samkvæmt lögreglunni hafði konan verið í veislu í nágrenninu þegar hún tók annan tveggja fána sem flaggað var við heimili Alexander Feaster.

Feaster mun hafa skotið konuna í bakið með hálfsjálfvirkum riffli er hún reyndi að hlaupa í burtu. Búist er við því að konan, sem er 26 ára gömul, nái sér af sárum sínum. Feaster er í haldi lögreglu vegna málsins.

Samkvæmt lögreglustjóranum Jody Helm fannst konan ofan í skurði með sex skotsár á bakinu. 

Myndefni úr öryggismyndavélum á svæðinu sýnir Feaster skjóta konuna án nokkurrar viðvörunar. Nágranni Feaster skarst í leikinn og skýldi konunni með pallbílnum sínum, auk þess sem annar nágranni sat vörð vopnaður riffli á lóð Feaster á meðan beðið var eftir lögreglu.

Feaster var handtekinn á vettvangi og hefur verið ákærður fyrir árás, líkamsárás með banvænu vopni og fyrir að skjóta með þeim ásetningi að drepa. Hann verður leiddur fyrir dómara 9. júlí.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert