Dauða eþíópísks söngvara mótmælt — 81 látinn

Samfélag Oroma í Bandaríkjunum mótmælti dauða Hundessa í gærkvöldi.
Samfélag Oroma í Bandaríkjunum mótmælti dauða Hundessa í gærkvöldi. AFP

Hörð mótmæli hafa brotist út í Eþíópíu eftir dauða söngvarans Hachalu Hundessa sem var skotinn til bana á mánudagskvöld. 

Útför Hundessa fór fram í morgun og var sýnd í beinni útsendingu í ríkissjónvarpi Eþíópíu. Vopnaðir hópar hafa farið um höfuðborgina Addis Ababa í dag og elt uppi ákveðin þjóðarbrot. Þá hafa að minnsta kosti 81 látist í mótmælum í Oromia-héraði síðan Hundessa lést. 

Söngvaranum, 34 ára, höfðu borist líflátshótanir en hvað bjó að baki morðinu er enn óljóst. Textar laga hans fjölluðu aðallega um réttindi Oromo þjóðarbrotsins og urðu baráttusöngvar í mótmælaöldunni sem leiddi til þess að fyrrverandi forsætisráðherra Eþíópíu var steypt af stóli árið 2018. 

„Hachalu er ekki dáinn. Hann lifir áfram í hjarta mínu og hjörtum milljóna Oromo fólks að eilífu,“ sagði Santu Demisew Diro, ekkja Hundessa. 

Samkvæmt BBC bárust fregnir að því að syrgjendur reyndu að fá því fram að útförinni yrði frestað þar til Jawar Mohammed, stjórnmálamaður af þjóðarbroti Oromo, yrði látinn laus úr haldi. Jawar var handtekinn á þruðjudag eftir að mótmælendur reyndu að hindra það að lík Hundessa yrði flutt úr höfuðborginni. Jawar hefur lengi beitt sér fyrir auknum réttindum Oromo. Jawar studdi forsætisráðherrann Abiy Ahmed, sem er sjálfur af þjóðarbroti Oromo, þegar hann tók við völdum í apríl 2018 en hefur ítrekað gagnrýnt hann opinberlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert