Karl fékk 186 milljónir frá dánarbúum á síðasta ári

Eignir dánarbúa í Cornwall, þar sem enginn erfingi né erfðaskrá …
Eignir dánarbúa í Cornwall, þar sem enginn erfingi né erfðaskrá er til staðar, renna til Karls Bretaprins. AFP

Á síðasta fjárhagsári fékk Karl Bretaprins samtals um 1,07 milljón pund, eða sem nemur um 186 milljónum króna, frá dánarbúum einstaklinga í héraðinu Cornwall í suðvestur hluta Englands. Er þetta vegna löggjafar sem tiltekur að í dánarbúum þar sem er enginn erfingi og ekki erfðaskrá til staðar, þá skuli eignir búsins renna til hertogans af Cornwall, en það er einmitt titill sem Karl ber.

Í gegnum þetta fyrirkomulag, sem nefnist „bona vacantia“ fékk Karl 868 þúsund pund frá apríl á síðasta ári til áramóta og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fékk hann 201 þúsund pund, eða samtals 1.069 þúsund pund á fjárhagsárinu.

Breska blaðið Telegraph greinir frá þessu, en samkvæmt frétt blaðsins voru tekjur Karls frá héraðinu á síðasta tekjuári 22 milljónir punda, eða um 3,8 milljarðar. Þó er gert ráð fyrir að tekjurnar geti lækkað vegna verðlækkunar á eignum í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Löggjöfin nær aftur til daga Vilhjálms fjórða, en hann var konungur Bretlands á árunum 1830 til 1837. Víða í Englandi og í Wales fara eignir dánarbúa, þar sem ekki er neinn erfingi til staðar, yfir til konungsfjölskyldunnar. Sögulega hafa þessir fjármunir verið notaðir til að greiða meðal annars heiðursborgaralaun eða í laun til meðlima konungsfjölskyldunnar.

Í tilfelli Cornwall og Lancaster fara fjármunirnir hins vegar til hertogans, en að lokum fara þeir fjármunir þó allir í góðgerðasamtök á viðkomandi svæði. Þannig greiddi sjóður Karls út meira en 850 þúsund pund á síðustu árum og hefur safnað saman meira en 5,5 milljónum punda í eignir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert