Svipti sig lífi eftir áralanga misnotkun þjálfara

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Suðurkóresk þríþrautarkona svipti sig lífi eftir áralangt líkamlegt og andlegt ofbeldi af hálfu þjálfara sinna. Konan hafði kvartað undan hegðun þjálfaranna til íþróttamálayfirvalda sem hundsuðu áhyggjur hennar. 

Choi Suk-hyeon, 22 ára, var efnileg þríþrautarkona og vann meðal annars brons í unglingaflokki kvenna á Asíuleikunum í þríþraut árið 2015. Samkvæmt AFP lést Choi á heimavist liðs síns í Busan í síðasta mánuði. 

Skjáskot af síðustu smáskilaboðasamskiptum hennar við móður sína hefur farið eins og eldur um sinu á netinu, en Choi biður í skilaboðunum móður sína að „upplýsa um syndir“ ofbeldismannanna.

Samkvæmt suðurkóreskum fjömiðlum tók Choi ofbeldið oft upp á hljóðupptöku. Á upptöku sem sjónvarpsfréttastöðin YTN spilaði má heyra þjálfara hennar reiðast gríðarlega þegar Choi hafði þyngst. „Þú þarft að forðast mat í þrjá daga. Þú lofaðir mér að þú myndir axla ábyrgð,“ sagði þjálfarinn og í kjölfarið heyrist hár smellur.

Choi kvartaði til Íþrótta- og ólympíusambands Suður-Kóreu í apríl og bað um að rannsókn færi fram á málinu. Vinur hennar sagði við fjölmiðla að Choi hefði raunar kvartað við fjölmargar opinberar stofnanir en engin þeirra hefði tekið hana alvarlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert