Ámælisvert að hleypa farþegum úr kórónufleyi

Skemmtiferðaskipið Ruby Princess.
Skemmtiferðaskipið Ruby Princess. AFP

Heilbrigðisyfirvöld í Ástralíu eru harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð við hópsýkingu kórónuveirunnar í skemmtiferðaskipinu Ruby Princess í nýrri skýrslu rannsóknarnefndar ástralska þingsins.

Skipið lagði úr höfn lagði úr höfn í Sydney 8. mars í þrettán daga siglingu um Kyrrahafið en skemmtiferðasiglingin snerist fljótt upp í andhverfu sína þegar 200 manns greindust með kórónuveiruna um borð. Síðar meir áttu 600 þeirra sem höfðu verið um borð í skipinu á sínum tíma eftir að greinast með veiruna og 28 létust að því er fram kemur í skýrslunni.

Eftir að hafa haldið skipinu við bryggju í nokkra daga var ákvörðun tekin um að allir farþegarnir 2.700 fengju að fara frá borði án fullnægjandi skimuar. Farþegarnir, sem sumir sástu hóstandi og spýtandi, gátu farið beinustu leið um borð í almenningssamgöngur og flugvélar til að komast heim. Þrátt fyrir áhyggjur yfirvalda virðist veiran ekki hafa breiðst mikið út í Ástralíu vegna þessara afglapa. Ef frá er talin hópsýking á eyjunni Tasmaníu greindust aðeins 34 í Ástralíu með annars stigs smit.

Í skýrslunni segir engu að síður að heilbrigðisyfirvöld hefðu átt að grípa til markvissari aðgerða til að skima alla farþega með einkenni sem gætu bent til kórónuveirunnar, en alls féll 101 farþegi undir þá skilgreiningu samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar.

Ákvörðun sérfræðinga hjá heilbrigðisyfirvöldum í Nýju Suður-Wales um að skilgreina skipið sem „lágáhættusvæði“ hafi verið „alvarleg mistök“. Farþegar hefðu allir átt að vera sendir í sóttkví og tryggja hefði átt húsnæði þeim sem ekki voru búsettir í ríkinu. Tveir dagar liðu hins vegar þar til stjórnvöld skipuðu farþegunum að fara í sóttkví.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert