Breyta hótelherbergjum í stúdentaíbúðir

Danska hótelið Absalon Annex bregður nú á það ráð að …
Danska hótelið Absalon Annex bregður nú á það ráð að breyta herbergjum sínum í heimili fyrir stúdenta. Leiga: Rúmar 100.000 krónur á mánuði. Ljósmynd/Absalon Annex

„Neyðin kennir naktri konu að spinna“ á svo vel við hér að danskur talsmaður hóteleigenda lætur meira að segja hafa málsháttinn eftir sér í samtali við DR. Tilefnið er frétt um að Absalons Annex-hótelið í Kaupmannahöfn er farið að breyta hótelherbergjum í íbúðir fyrir stúdenta. 

Þetta liggur auðvitað beinast við á þessum síðustu og verstu tímum, þar sem stúdentar finna ekki íbúð vegna húsnæðiseklu og hótel finna ekki kúnna sökum heimsfaraldurs kórónuveiru.

DR tekur fyrsta íbúann tali, matreiðslunemann Frederik Thorsen: „Þetta er svolítið eins og að vera í sumarfríi. Tilfinningin að taka við lykilkortinu er sú sama, nema nú er munurinn sá, að ég á heima hérna.“

40 á biðlista

Thorsen er fluttur inn í herbergi 323 og unir vel við sinn hlut. Hann borgar 5.000 krónur danskar fyrir mánuðinn, rúmar 100.000 krónur íslenskar. Innifalið er net, reiðhjól og vikuleg þrif.

Hótelin, sem voru 68% minna bókuð í júlí en sama mánuð í fyrra, telja þetta vissulega ekki leysa málin, en líf færist í bygginguna og auðvitað eru tekjurnar nokkrar. „Þetta snýst um að lifa þetta af,“ segir hótelstjórinn. Þegar eru fjörutíu enn á biðlista eftir stúdentaherbergi hjá Absalon Annex og önnur hótel gert sig líkleg til þess að leika sama leik.

Kórónuveiran sýnir að öðru leyti ekki á sér fararsnið í Danmörku. Smitum hefur fjölgað verulega allra síðustu daga og á fimmtudag greindust 165 ný smit. Í Árósum greindust 77 ný smit, samanborið við í á milli 0-3 dag seinni hluta júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert