Hætta að selja flugferðir til einskis

Uppátæki Singapore Airlines lagðist misvel í fólk.
Uppátæki Singapore Airlines lagðist misvel í fólk. AFP

Flugfélagið Singapore Airlines hefur hætt við fyrirætlanir um „flug til einskis“ — flugferðir án áfangastaðar. Áformin voru upphaflega kynnt fyrr í mánuðinum en til stóð að bjóða til sölu þriggja tíma útsýnisflug þar sem lenti yrði á sama flugvelli og tekið var af stað. Nýjunginni var ætlað að auka tekjur fyrirtækisins á tímum þar sem flugsamgöngur eru í lamasessi.

Singapore Airlines sagði núverið 4.300 starfsmönnum upp, eða um 20 prósentum starfsaflans.

Tíminn til að huga að breytingum

Umhverfisverndarsamtök voru ekki hrifin af uppátækinu, en samtökin SG Climate Rally sögðu það meðal annars „kolefniskræf ferðalög af engri ástæðu“.

„Við trúum því að flug hafi alltaf valdið miklum umhverfisskaða, og nú er tíminn til að huga alvarlega að breytingum í stað þess að halda í skaðlegt óbreytt ástand,“ sagði í yfirlýsingu frá umhverfissamtökunum.

Þeim hefur nú orðið að ósk sinni. Þess í stað mun flugfélagið bjóða upp á skoðunarferðir og nýta vélarnar sem veitingastað á jörðu niðri.

Félagið var þó ekki að finna upp hjólið með hugmyndinni umdeildu. Önnur félög, svo sem í Ástralíu, Japan og Taívan, hafa síðustu vikur selt í flugferðir án áfangastaðar og hafa þeir reynst furðuvinsælar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert