Armenar fá aðstoð frá Rússum

Frá Nagornó-Karabak.
Frá Nagornó-Karabak. AFP

Rússneska utanríkisráðuneytið gaf það út í morgun að ríkið myndi veita Armeníu nauðsynlega aðstoð, ef átök um héraðið Nagornó-Karabak næði til Armeníu. Yfirstandandi átök milli Armeníu og Aserbaídsjan hafa ekki enn náð til höfuðborga ríkjanna, Yerevan í Armeníu og Bakú í Aserbaídsjan, en ef átökin ná til Yerevan, segjast Rússar reiðubúnir að veita aðstoð. 

„Rússland mun veita Yerevan alla nauðsynlega aðstoð, komi til þess að átök breiðist út innan Armeníu,“ sagði í yfirlýsingu rússneska utanríkisráðuneytisins.

Fyrr í dag hafði  Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu, beðið Valdímír Pútín Rússlandsforseta um að veita „bráðnauðsynlega“ ráðgjöf er varðar þjóðaröryggi og varnarmál.

Átökin halda áfram

Armenía og Aserbaídsjan hafa deilt um héraðið Nagornó-Karabak í áratugi og áður hefur komið til átaka líkt og nú. Ríflega þúsund hafa farist í átökunum síðan þau hófust í september, bæði hermenn og óbreyttir borgarar og þá hafa borist fregnir af því að blaðamenn á svæðinu, hvaðanæva úr heiminum, hafi særst.

Tæplega 100 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín vegna átakanna í Nagornó-Karabak, sér í lagi í kringum Artsakh, nærliggjandi svæði sem hlotið hefur viðurkenningu fullveldis frá sjö öðrum fullvalda ríkjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert