„Ástin til hans er djúpstæð“

Helgi Hrafn með vini sínum að horfa á leik í …
Helgi Hrafn með vini sínum að horfa á leik í Argentínu.

Samband Diego Armando Maradona við argentínsku þjóðina er flókið. Hin gallaða hetja reis úr öskustónni úr fátækrahverfum Buenos Aires og varð leiðtogi þjáðrar þjóðar. Líkt og Íkarus flaug Maradona of nærri sólinni en vegna einstaks persónuleika hefur þjóðin staðið með Maradona allt til dauðadags.

Helgi Hrafn Guðmundsson bjó í Argentínu í átta ár og starfaði þar sem blaðamaður og þekkir þjóðlífið vel. Hann segir að það sé táknrænt að líkvaka Maradona sé haldin í forsetahöllinni. Stjórnvöld halda minningunni um þjóðardýrlingsins á lofti. Hér fyrir neðan má sjá útsendingu frá líkvökunni. 

Menningarlegt fótspor

„Auðvitað er hann íþróttahetja en hann hefur líka menningarlegt fótspor sem listamaður í lífinu. Persóna hans var svo sjarmerandi. Það er ekki bara það að hann hafi leitt þjóðina til sigurs í heimsmeistarakeppni, heldur þykir fólki svo vænt um hann því hann var töfrandi persónuleiki,“ segir Helgi.

Maradona lýsti því yfir að hönd guðs hefði skorað umdeilt …
Maradona lýsti því yfir að hönd guðs hefði skorað umdeilt mark gegn Englandi í átta liða úrslitum HM 1986. Reuters

Eins og frægt er orðið var stofnaður kirkjusöfnuður tileinkaður Maradona (Iglesia Maradoniana) þar sem safnaðarmeðlimir dýrka kappann. Helgi segir að þó að það sé síður en svo að hinn venjulegi Argentínumaður hugsi til Maradona og einhvers guðlegs í sömu andrá. „Hann var þessi gallaða hetja og því risti kærleikurinn dýpra. Hann var gallagripur sem var þó alltaf einlægur í sínu lífi,“ segir Helgi.

Sigur í skugga Falklandseyjastríðsins 

Að sögn Helga kristallast mikilvægi sigurs Argentínumanna á HM 1986 í erfiðleikum sem þjóðin hafði gengið í gengnum. Á þeim tíma var Argentína nýlega komin undan kúgandi herforingjastjórn. Samhliða höfðu Argentínumenn og Englendingar átt í stríði um Falklandseyjar þar sem fjöldi Argentínumanna týndi lífi. Argentínumenn mættu einmitt Englendingum í átta liða úrslitum keppninnar. 

„Jafnaldrar Maradona fóru í þetta stríð og Englandsleikurinn varð rosalega táknrænn fyrir þær sakir. Þarna var blóðugt stríð og eftir stóð hatur út í Englendinga. Samhliða var mikil uppgjöf í þjóðinni. Lýðræði hafði verið til staðar í þrjú ár og allt í klessu þegar Maradona rúllar keppninni upp. Það hafði gríðarlega jákvæðar og sameinandi afleiðingar fyrir þjóðina. Ástin til hans er djúpstæð vegna þessa," segir Helgi.

Diego Maradona er af mörgum talinn hafa verið sá allra …
Diego Maradona er af mörgum talinn hafa verið sá allra besti sem reimaði á sig takkaskó. AFP

Argentínumenn sigruðu einnig heimsmeistarakeppnina sem haldin var í Argentínu árið 1978. Helgi segir að sá sigur hafi verið í skugga herforingjastjórnarinnar og skilið suma eftir með óbragð í munni óvissa um það hvort brögð hafi verið í tafli. Því hafi brotist út mun hreinni gleðitilfinningar árið 1986.

„Maradona var fullkominn í það hlutverk að sameina þjóðina. Lágstéttarmaður sem kemst upp á stjörnuhimininn og verður svo þessi alþjóðlega ofurstjarna,“segir Helgi.

Umgekkst umdeilda leiðtoga 

Knattspyrnuferill kappans varð svo endaslepptur eftir eftirminnileg ár með knattspyrnuliðinu Napólí þar sem hann var dýrkaður og dáður. Skuggi fíknarinnar vofði yfir Maradona og eru margir á því að stjarna hans hafi brunnið of hratt upp. Niðurlæging hans var svo fullkomnuð þegar hann féll á lyfjaprófi á HM 1994 eftir að hafa svarið fyrir Argentínumönnum að hann væri laus við lyfjanotkun. Hann hætti knattspyrnuiðkun stuttu síðar.

Maradona við komuna til Kúbu.
Maradona við komuna til Kúbu. AP

Að sögn Helga tók við margra ára tímabil þar sem Maradona lifði líferni glaumgosa samhliða því að vera á ferðalögum og koma fram sem sú alþjóðlega stjarna sem hann var. Orðrómur um kókaínfíkn kappans var áfram hávær og fljótlega fóru að birtast myndir af þessum fyrrum dáða knattspyrnumanni þar sem hann var orðinn akfeitur, fjarri því að líkjast ungstirninu sem sigraði heiminn árið 1986. Tók hann því til þess ráðs að fara í magaminnkun á Kúbu. Fyrr en varði var Maradona farinn að birast opinberlega með Fidel Kastró sér við hlið.  

Maradona og Fidel Castro árið 2013.
Maradona og Fidel Castro árið 2013. AFP

Helgi segir samneytið við Kastró táknrænt fyrir Maradona. Hann hafi alla tíð umgengist umdeilt fólk. Hafði hann tengsl við mafíuna þegar hann lék með Napólí auk þess sem hann var vinur líbíska einræðisherrans Muammar Gaddafi.

Forsetinn þarf að taka tillit til páfa og Maradona 

„Hann var enginn einfeldningur, heldur var hann klár líka og hafði skoðanir á þjóðlífinu. Hann var yfirlýstur sósíalisti og var mikið í Venesúela með Chaves og Maduro. Venjulegum Argentínumanni finnst þetta hættulegir menn en hann komst einhvern veginn alltaf upp með þetta því hann var sá sem hann var. Það lýsir þessu ágætlega að ef þú ert nýkjörinn forseti í Argentínu þá þarftu að ávallt að hugsa um álit tveggja. Það er annars vegar páfans og hins vegar Maradona því hann talaði til mjög stórs hóps í landinu,“ segir Helgi.

Diego Maradona er dáður og dýrkaður í Argentínu og Napólí.
Diego Maradona er dáður og dýrkaður í Argentínu og Napólí. AFP

 Gekkst við frægðinni 

Þrátt fyrir að vera yfirlýstur sósíalisti átti hann gjarnan samneyti við þá ríku. Þannig bjó hann lengi í Dubaí og sást oft í fylgdum olíufursta þar auk þess að eiga samneyti við áðurnefnda þjóðarleiðtoga. „Hann gat ekki gengið óáreittur á götum í Argentínu. Hann fór ekki út úr húsi án þess að þar væru mættir papparazzi-ljósmyndarar. En þess má geta að hann var mjög meðvitaður um eigin frægð og hún var dópið hans ásamt kókaíninu. Því má segja að hann hafi að hluta til gengist við því hlutverki að vera sá sem hann var,“ segir Helgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert