Svindlarar nýta sér jólapóstinn

Óforskammaðir svikahrappar senda tölvupóst, sem virðist koma frá Posten eða …
Óforskammaðir svikahrappar senda tölvupóst, sem virðist koma frá Posten eða PostNord, í von um að ginna viðtakendur til að greiða 27,27 norskar krónur með því að smella á hnapp í póstinum. Upplýsingafulltrúi Posten segir fjárkröfur þaðan aldrei sendar með tölvupósti. Ljósmynd/Posten

Óprúttnir svindlarar láta einskis ófreistað er kemur að því að féfletta grunlausan almenning með æ tæknivæddari aðferðum eftir því sem lýðnetið teygir sig lengra inn í samskipti fyrirtækja og viðskiptavina.

Í Noregi hafa nú tveir af risunum í póstþjónustunni, Posten og PostNord, sent út aðvaranir til viðskiptavina sinna fyrir jólavertíðina eftir að bera tók á svindlaðferð sem reyndar er ekki glæný og norskir fjölmiðlar hafa fjallað um áður.

27,27 krónur

Aðferðafræðin er sú að Jón og Gunna, sem oft og tíðum eiga von á einni eða fleiri sendingum með póstinum í desember, fá tölvupóst sem virðist koma frá Posten eða PostNord. Þeim er tjáð að þau eigi von á pakka og eru beðin að smella á hnapp í póstinum til að greiða gjald fyrir sendinguna, 27,27 norskar krónur. Þetta eru rúmar 400 íslenskar krónur og ef til vill ekki stórmál fyrir marga til að fá sendinguna sem beðið er.

Gjald þetta skal samkvæmt póstinum greiðast innan þriggja daga, boðin er fram aðstoð sé hennar þörf og bestu kveðjur að lokum sendar.

Marit Solveig Nedrebø frá Bygstad var ekki langt frá því að bíta á agnið, eins og hún greinir norska ríkisútvarpinu NRK frá. „Þarna stóð að pakki væri á leiðinni til mín og ég þyrfti að greiða 27 krónur með því að smella á hlekk,“ segir Nedrebø sem kveðst hafa haldið að sendandinn hefði greitt of lágt burðargjald og það sem út af stæði félli því á hana.

Féllu á eigin bragði

Hún áttaði sig hins vegar fljótt á því að þarna væri gamli kötturinn í sekknum á ferðinni. Svikahrapparnir féllu á eigin bragði og sendu henni tvo nákvæmlega samhljóða pósta, annan í nafni Posten og hinn PostNord. Upphæðin hjá báðum var 27,27 krónur.

„Í flýti getur verið auðvelt að láta blekkjast, þetta leit nokkuð fagmannlega út,“ segir Nedrebø.

Svindlpósturinn sem látið er líta út fyrir að komi frá …
Svindlpósturinn sem látið er líta út fyrir að komi frá PostNord. Skjáskot

Upplýsingafulltrúi Posten, Kenneth Tjønndal Pettersen, segir marga eiga von á pökkum um þetta leyti og hefur vafalaust lög að mæla, en aldrei fyrr hafa Norðmenn verslað eins mikið gegnum lýðnetið svo sem fyrir Svarta föstudaginn svokallaða í ár, enda föstudagurinn sá orðinn býsna langur eða heil vika.

„Vertíð svindlaranna“

Pettersen segir Posten aldrei senda greiðslukröfur á borð við svindlkröfuna í tölvupósti. Mjög mikið hafi kveðið að svindli þessu og svikahrapparnir færi sig sífellt upp á skaftið. „Mér þykir þetta mjög leitt, manni finnst það sorglegt þegar maður heyrir um þetta,“ segir upplýsingafulltrúinn.

Vesturumdæmi norsku lögreglunnar hefur gefið það út að þangað hafi borist mýgrútur ábendinga um falska pósta frá sendingafyrirtækjum og varar við „vertíð svindlaranna“ sem er einmitt desember.

NRK

Aftenposten (læst frétt en mynd af póstunum sýnd)

PostNord (varað við svindlinu)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert