Hélt syni sínum föngnum í 28 ár

Maðurinn hefur sennilega ekki farið út úr íbúðinni í Stokkhólmi …
Maðurinn hefur sennilega ekki farið út úr íbúðinni í Stokkhólmi í 28 ár. AFP

Kona á Stokkhólmssvæðinu er talin hafa haldið syni sínum föngnum á heimilinu áratugum saman. Sonurinn, sem er 41 árs að aldri, fannst liggjandi á teppi á gólfi íbúðarinnar þegar lögregla og sjúkraflutningafólk kom á vettvang en frænka konunnar tilkynnti málið til yfirvalda.

Í frétt Aftonbladet kemur fram að maðurinn var greinilega vannærður, tannlaus og með sár um allan líkamann. Hann kunni vart að tala að því er fram kemur í fréttinni. Samkvæmt Expressen hafði konan haldið syni sínum föngnum í 28 ár.

Sænskir fjölmiðlar greinar frá því að frænka móðurinnar hafi brotist inn í íbúðina þegar móðirin var að heiman og þar fann hún manninn. Á vegg íbúðarinnar héngu tvö dagatöl, annað frá árinu 1995 og hitt 1996. Samkvæmt upplýsingum fjölmiðlanna var allt á rúi og stúi í íbúðinni svo að erfitt var að ganga um hana. Talið er að teppið sem maðurinn lá á sé rúmið hans. 

Maðurinn var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl og var strax sendur í aðgerð vegna sára sinna.

Heimildir Aftonbladet herma að eitthvað hafi komið upp á í fjölskyldunni þegar drengurinn var lítill og hún verndað hann fyrir öllu. Þegar hann var unglingur tók hún hann úr skóla og telja ættingjar að hún hafi haldið honum föngnum síðan þá. 

Talsmaður lögreglunnar í Stokkhólmi, Towe Hägg, staðfestir að málið sé í rannsókn.

Konan sem fann drenginn segir að þegar hún var ung kona hafi hún reynt að vara aðra við í fjölskyldunni um að eitthvað væri athugavert við samband móður við son sinn en enginn hafi hlustað á hana þannig að hún gafst upp. Hana hafi alltaf grunað að það væri eitthvað athugavert í gangi og þegar móðirin þurfti að fara á sjúkrahús braust hún inn í íbúðina og fann soninn.

Konan telur að móðirin hafi alltaf sagt syni sínum að heimurinn fyrir utan íbúðina væri hættulegur og hún ein gæti verndað hann fyrir vonsku heimsins.

Hún segir að það hafi verið áfall að koma inn í íbúðina sem minnti helst á ruslahaug enda hefði ekki verið þrifið þar áratugum saman. „Þetta var eins og að stíga inn í hryllingsmynd,“ segir hún í samtali við Expressen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert