Bretar hafi flýtt sér um of í mark

Kona bólusett
Kona bólusett AFP

Lyfjastofnun Evrópu gaf í skyn í dag að breskir eftirlitsaðilar hafi forgangsraðað hraða yfir traust almennings í því skyni að gera Bretland að fyrsta vestræna ríkinu sem gefur út bráðaheimild fyrir bóluefni við kórónuveirunni. 

Guardian greinir frá.

Eftir að tilkynnt var að bóluefni Pfizer/Biontech hefði fengið bráðaleyfi frá lyfjastofnun Bretlands gaf lyfjastofnun Evrópu út yfirlýsingu þar sem stofnunin rökstuddi nálgun stofnunarinnar sem hún segir trausta.

Matt Hancock heilbrigðisráðherra Bretlands sagði í morgun að þessi snögga leyfisveiting Breta hefði verið möguleg „vegna Brexit“ og sagði að Evrópubúar „hreyfðu sig aðeins hægar.“ Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að það sé hreinlega ósatt að hin snögga leyfisveiting hafi verið möguleg „vegna Brexit“.

Þjóðverjar ákváðu að velja aðra leið

Lyfjastofnun Evrópu sagði í tilkynningu að ríki Evrópusambandsins hefðu möguleika á að veita bóluefnunum bráðaleyfi en ferli Lyfjastofnunar Evrópu væri „viðeigandi leið í núverandi heimsfaraldri til þess að veita öllum íbúum Evrópusambandsins aðgang að bóluefni og til að renna stoðum undir miklar bólusetningarherferðir.“ 

Jens Spahn, heilbrigðisráðherra Þýskalands, sagði að þýsk yfirvöld hafi einnig íhugað að grípa til snöggrar leyfisveitingar en ákveðið að mikilvægara væri að tryggja öryggi bóluefnisins en að koma því hratt í hendur þjóðarinnar. 

„Hugmyndin var ekki sú að við yrðum fyrst heldur að eignast örugg og áhrifarík bóluefni gegn faraldrinum og að við getum áunnið okkur traust, ekkert er mikilvægara en traust þegar kemur að bóluefni,“ sagði Spahn. 

Hann bætti því við að Þjóðverjar vildu að allar Evrópuþjóðir gætu boðið upp á bóluefni samtímis. Þýskaland hefði getað gefið Pfizer/Biontech bráðaleyfi ef þeim hugnaðist svo, vert er að nefna að Pfizer er þýskt lyfjafyrirtæki.

„En við ákváðum frekar að velja algengari evrópska sýn sem felst í því að horfa fram á veginn saman,“ sagði Spahn. 

Lyfjastofnun Evrópu gerir ráð fyrir því að geta lagt sitt eigið mat á bóluefnin fyrir 29. desember næstkomandi. Ekki er útlit fyrir að útgáfa bráðaleyfis Breta muni hafa veruleg áhrif á framboð bóluefna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert