Armenar mótmæla uppgjöf forsætisráðherrans

Nikol Pashinyan flytur erindi við minnigarathöfn um fallna armenska hermenn. …
Nikol Pashinyan flytur erindi við minnigarathöfn um fallna armenska hermenn. Hann er nú harðlega gagnrýndur. AFP

Þúsundir manna mótmæltu á götum úti í Jerevan, höfuðborg Armeníu, í dag. Forsætisráðherra landsins, Nikol Pashinyan, er harðlega gagnrýndur fyrir friðarsamkomulag við nágrannaríkið Aserbaídsjan, sem hann undirritaði til að binda enda á sex vikna löng átök milli ríkjanna um héraðið Nagornó-Karabak.

Armenar gáfu eftir þrjú stór landsvæði til viðbótar við þau fjögur svæði sem hersveitir Asera höfðu sölsað undir sig og hefur það vakið mikla reiði meðal Armena. Mótmælendur hafa nær daglega síðan 9. nóvember, þegar friðarsamkomulagið var undirritað, brotist inn í opinberar byggingar og krafist þess að Pashinyan víki úr sæti forsætisráðherra. 

Nagornó-Karabak er af alþjóðasamfélaginu viðurkennt sem hluti af Aserbaídsjan en þar búa engu að síður fleiri Armenar en Aserar. Íbúar svæðisins hafa þó þurft að flýja undan átökum á síðustu vikum. Þúsundir hermanna og almennra borgara hafa látist. 

Talið er að friðarsamkomulagið, sem að miklu leyti var undirritað fyrir tilstilli Rússa, muni aðeins reynast vera vopnahlé. Aðeins sé tímaspursmál hvenær átök brjótist út að nýju, þar sem engin endanleg málalok eru talin hafa fengist, hvorki í augum Asera né Armena.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert