Loftsteinn skall til jarðar í Noregi

Þessi mynd náðist af falli loftsteinsins frá Harestua í Lunner …
Þessi mynd náðist af falli loftsteinsins frá Harestua í Lunner í Viken-fylki, en eldglæringarnar aðfaranótt 5. janúar sáust víða í Austur-Noregi, einkum í fylkjunum Innlandet og Viken. Ljósmynd/Norsk meteornettverk

„Vel heyrðist í honum í Ullensaker, skammt frá Gjerdrum, og margir óttuðust að annað jarðfall væri að eiga sér stað,“ segir Anne Strømmen Lycke, forstöðumaður norsku jarðhræringamiðstöðvarinnar NORSAR, eða Norwegian Seismic Array, um loftstein sem skall til jarðar í Løten, rétt austan við bæinn Hamar norður af Ósló, klukkan 00:24 aðfaranótt 5. janúar.

Sýna mælingar NORSAR glöggt hvenær steinninn lenti, tæpum þremur mínútum eftir að hann kom inn í lofthjúp jarðar og er lendingarstaðarins nú leitað á stóru svæði.

Þessi óvænti gestur lenti nánast sléttum mánuði eftir að fjöldi manns í nyrstu fylkjum Noregs, þar á meðal Øyvind Lang­sæt­her leigubifreiðarstjóri í Nar­vik, sá stóran eldhnött á himni um kvöldmatarleytið 4. desember og náði Langsæther nokkuð skýrri mynd af fyrirbærinu á mælaborðsmyndavél sína.

Að sögn Vegard Lund­by Rekaa, stjörnu­fræðing­s hjá áhugamannasamtökunum Norsk meteornett­verk, höfðu aðeins fimm steinar af svipaðri stærð og steinninn í desember sést yfir Noregi síðan samtökin voru stofnuð árið 2013, en Norsk meteornettverk heldur meðal annars utan um myndir sem almenningur nær af fallandi loftsteinum og sendir samtökunum.

Nýi steinninn lenti að sögn Lycke einhvers staðar milli Tangen og Flisa í Innlandet-fylki (áður Hedmark) og segist hún ekki vita til þess að áður hafi tekist að staðsetja lendingarstað loftsteins svo nákvæmlega í Noregi. „Við vorum heppin, hann lenti ekki langt frá mælistöð sem við erum með í Løten og olli smávægilegum jarðskjálfta sem stöðin greindi.“

„Bara“ loftsteinn

Fjöldi fólks hafði samband við NORSAR eftir að hafa heyrt hávaðann sem fylgdi steininum, þar á meðal íbúar í Gjerdrum sem, eins og áður sagði óttuðust að annað jarðfall væri í nánd þar á svæðinu. „Við könnuðum málið og gátum róað fólk með þeim fréttum að þetta væri „bara“ loftsteinn sem hefði komið inn í andrúmsloftið,“ segir Lycke við norska ríkisútvarpið NRK.

Starfsfólk NORSAR og Norsk meteornettverk leitar nú steinsins sem líklega kom niður 15 – 20 kílómetra frá téðri mælistöð. „Það væri býsna gaman að finna hann,“ segir Lycke og getur ekki leynt eftirvæntingu sinni.

„Líklega er ekki mikið eftir af honum, kannski stykki á stærð við epli, en þetta er æsispennandi,“ segir Morten Bilet hjá Norsk meteornettverk og kveðst vonast til þess að „nýárssteinninn“ muni finnast og hljóta sinn sess við hlið þeirra 16 steina sem þegar eru varðveittir á Náttúrusögusafninu Naturhistorisk museum.

NRK (hér má sjá myndskeið sem náðist af hrapi steinsins)

Nettavisen

Aftenposten

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert