Múgurinn svipti lögreglumann vopnum sínum

Blóm hanga á girðingu við þignhúsið til minningar um lögreglumanninn …
Blóm hanga á girðingu við þignhúsið til minningar um lögreglumanninn Brian Sicknick sem lést í innrásinni. AFP

Þegar lögreglumaðurinn Michael Fanone lá á gólfi þinghúss Bandaríkjanna, í áfalli og meiddur, vissi hann að hópur óeirðarseggja væru að taka af honum þau vopn sem hann var með á sér. Þeir tóku skothylki, rifu talstöðina af Fanone og stálu lögreglumerki hans. 

Síðan heyrði Fanone, sem hafði þá verið gefin nokkur raflost, svolítið sem fékk hárin til að rísa og hann gat ekki hugsað um neitt annað en að lifa af. 

„Nokkrir menn náðu taki á byssunni minni og öskruðu: „Drepið hann með hans eigin byssu,““ sagði Fanone, sem hefur verið lögreglumaður í tæpa tvo áratugi, í viðtali við CNN.

Í viðtalinu lýsir Fanone reynslu sinni af því að berjast við múg stuðningsmanna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem réðust inn í þinghús Bandaríkjanna. 

Staddur í sinni verstu martröð

Fanone starfar í fíkniefnadeild lögreglunnar. Hann vinnur jafnan í hversdagslegum fötum en þegar hann heyrði af innrásinni greip hann lögreglubúninginn sinn og klæddi sig í hann í fyrsta sinn. Hann hljóp að þinghúsinu með félaga sínum og hjálpaði lögreglumönnum sem áttu fullt í fangi með að kljást við óeirðarseggina. 

Fanoe, sem segist frekar vilja vera skotinn en dreginn inn í mannfjölda þar sem hann hefur enga stjórn á aðstæðum, var skyndilega staddur í sinni verstu martröð. Hann íhugaði fljótlega að beita skotvopni sínu gegn múgnum en tók ákvörðun um að það væri ekki skynsamlegt þar sem múgurinn myndi líklega yfirbuga hann aftur, taka byssu hans og hafa ástæðu til að binda endi á líf hans. 

„Hinn valkosturinn sem ég hugsaði um var að höfða til samvisku fólks. Ég man bara að ég hrópaði að ég ætti börn. Það virtist virka,“ segir Fanone sem er 40 ára gamall faðir fjögurra barna. 

Hópur inann múgsins ákvað þá að standa vörð um Fanone þar til hjálp bærist. Með því bjargaði hópurinn líklega lífi Fanones. Hann segist þakklátur þeim sem það gerðu en reiður þeim fyrir að hafa mætt á staðinn og ráðist inn í þinghúsið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert