Óskaði Harris til hamingju og bauð fram aðstoð

Mike Pence og Kamala Harris.
Mike Pence og Kamala Harris. Samsett mynd

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hafði samband við Kamölu Harris, verðandi varaforseta Bandaríkjanna, í dag til að óska henni til hamingju með kjörið og bjóða fram aðstoð sína við stjórnarskiptin sem fara fram 20. janúar nk. Samtalið var það fyrsta á milli þeirra síðan þau tókust á í kappræðunum fyrir forsetakosningarnar í nóvember sl.

Ekki hefur verið gefið út nánar hvað fór þeirra á milli en Pence er sagður hafa lýst samtalinu sem „kurteisu og góðu“. Þrátt fyrir að hafa lofað hnökralausum stjórnarskiptum hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti ekki enn haft samband við Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseta.

Samband Pence og Trump hefur hnignað síðan varaforsetinn staðfesti kjör Biden sem forseta 6. janúar, sama dag og lýður réðst inn í þinghús Bandaríkjanna með þeim afleiðingum að fimm létu lífið. Trump er sagður afar ósáttur með Pence og upplifir sig svikinn.

Innsetningarathöfn Biden fer fram 20. janúar þar sem Pence verður viðstaddur en Trump ekki. Talið er að forsetinn muni á næstu dögum yfirgefa Hvíta Húsið og fljúga sig til Mar-a-Lago í Flórída þar sem hann ætli sér að setjast að fyrst um sinn eftir að forsetatíð hans lýkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert