Óttast lögsóknir vegna erfiðra ákvarðana

Þó að bólusetningar séu hafnar í Bretlandi, er ástandið viðsjárvert …
Þó að bólusetningar séu hafnar í Bretlandi, er ástandið viðsjárvert á sjúkrahúsum landsins. AFP

Breskir heilbrigðisstarfsmenn hafa undanfarna daga biðlað til yfirvalda að koma í veg fyrir það að lögsóknum rigni yfir þá vegna erfiðra ákvarðana sem þeir hafa þurft að taka á farsóttartímum.

Þess eru þegar dæmi að breskir heilbrigðisstarfsmenn lendi í lagadeilum vegna umönnunar Covid-19 sjúklinga. Samkvæmt könnunum sem samtök heilbrigðisstarfsfólks hafa látið framkvæma eru 61% starfsmanna hræddir um að eiga slíkt í vændum eftir að hafa þurft að taka ákvörðun við krefjandi aðstæður. 

Í yfirlýsingum frá samtökum þessa starfsfólks segir að enda þótt heilbrigðisstarfsmenn eigi ekki að vera hafnir yfir lög, þurfi stjórnvöld að tryggja að starfsfólk verði ekki fyrir þeim langvarandi andlega skaða sem hlýst af því að vera sakaður um glöp í starfi sem leiða til dæmis til ótímabærs dauða.

Þegar úrræði séu takmörkuð, verði ákvarðanir um það hvernig skal skipta gæðum á milli sjúklinga stundum að vera teknar mjög hratt.

AFP

Óttast er að heilbrigðiskerfið í Bretlandi standist ekki það álag sem er í vændum og af þeim sökum hefur þessi umræða skapast.

Neyðarástand ríkir á fjölda sjúkrahúsa, þar sem langar tafir geta orðið á innlögnum hjá sjúklingum sem þurfa þeirra umsvifalaust við. Enn lengri er biðin fyrir þá sem þegar eru á biðlistum fyrir valkvæðar aðgerðir. Hún hefur í sumum tilvikum hundraðfaldast í ástandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert