Spánverji látinn á K2

Sergi Minote lést á leið sinni niður að þriðju búðum …
Sergi Minote lést á leið sinni niður að þriðju búðum á K2. Ljósmynd/Twitter

Spænskur fjallagarpur að nafni Sergi Minote lést á K2 í gær þegar hann var á leið niður í þriðju búðir ásamt félögum sínum. Hann féll á leiðinni og var úrskurðaður látinn skömmu síðar. Forystumenn í spænskum stjórnmálum syrgja Minote á samfélagsmiðlum, enda þjóðþekktur og sömuleiðis virkur í stjórnmálum fyrir sósíalista.

Spánverjinn var á þessu öðru hæsta fjalli heims í von um að ná þeim sögulega áfanga að komast upp á topp að vetri til. Annar hópur varð fyrri til með það markmið í morgun. Þar var hópur nepalskra manna á ferð undir forystu Mingma Gyabu Sherpa, heimsfrægs fjallagarps. 

Spænski heilbrigðisráðherrann Salvador Illa kveðst sleginn yfir andlátsfregn Minotes, sem hann segir hafa verið persónulegan vin sinn. Pedro Sánchez forsætisráðherra sendir fjölskyldu hans þá kveðju á twitter.

Reynir að komast upp á topp

Íslenski afreksmaðurinn John Snorri Sigurjónsson er staddur í þriðju búðum á K2, þangað sem Minote var á leiðinni er honum skrikaði fótur. John Snorri hefur í hyggju að komast upp á topp og tilkynnti það í fyrradag að hann væri kominn í búðir og að hann fagnaði áfanganum með kexi og kavíar frá Íslandi.

Fjöldi hópa er staddur á fjallinu núna og gerir atlögu að tindinum. Fjallið hefur oftsinnis verið toppað en aldrei áður að vetri til, eins og náðist í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert