Stærsta bólusetningarherferð sögunnar

Bólusetningarherferð í Indlandi verður mikil áskorun að sögn erlendra miðla.
Bólusetningarherferð í Indlandi verður mikil áskorun að sögn erlendra miðla. AFP

Enn hafa aðeins 600.000 verið bólusett í Indlandi af þeim tæpu 1,4 milljörðum sem búa í landinu. Að sögn forsætisráðherrans Narendra Modi er bólusettum þó í þann mund að fara að fjölga verulega á næstu vikum og mánuðum, því í landinu er að hefjast það sem stjórnmálaleiðtoginn kallar stærstu bólusetningarherferð í sögu mannkyns.

„Ekkert land hefur nokkru sinni ráðist í bólusetningarherferð af þessari stærðargráðu,“ sagði forsætisráðherrann í sjónvarpsávarpi í vikunni. Fyrst verða 30 milljónir framlínustarfsfólks bólusettar en síðan snúa heilbrigðisstarfsmenn sér að því að bólusetja almenna borgara eldri en fimmtuga.

Í júlí eiga samtals um 300 milljónir þegar að hafa fengið bóluefni í landinu, sem er rúmur fimmtungur íbúa landsins. Indland er næstfjölmennasta ríki heims (1.380.004.385 íbúar) á eftir Kína (1.439.323.776 íbúar).

Í Der Spiegel segir að ófullnægjandi innviðir og útbreiddar efasemdir um ágæti bóluefna hljóti að gera Indverjum erfitt fyrir í þessu mikla verkefni. Sem betur fer séu þeir þó vanir meiriháttar bólusetningarherferðum enda enn ráðist í slíkar vegna berkla og lömunarveiki. 

Umdeilt bóluefni

Í Kína stendur til að bólusetja hið minnsta 60% íbúa en ekki liggur fyrir hvenær því verki á að vera lokið. Enn um sinn styðjast Kínverjar fyrst og fremst við eigið bóluefni frá Sinopharm.

Indverjar eru einnig með eigin bóluefni, Covaxin frá Bharat Biotech. Það bóluefni er umdeilt enda var bráðaleyfi gefið út áður en þriðja stigi tilrauna var lokið. Ásamt Covaxin hafa Indverjar einnig heimilað bóluefni AstraZeneca, rétt eins og Bretar hafa gert og fyrirséð er að Evrópusambandið geri í lok þessa eða byrjun næsta mánaðar.

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.
Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert