„Við óttumst það versta“

Aðgerðastjóri lögreglunnar í Nordland segist óttast það versta eftir að …
Aðgerðastjóri lögreglunnar í Nordland segist óttast það versta eftir að sumarbústaður í Risøyhamn á Andøy brann til grunna í nótt. Einn af sex, sem þar dvöldu, komst út við illan leik og hljóp berfættur margra kílómetra leið til að kalla eftir hjálp en farsímasamband á eyjunni er takmarkað. Hinna fimm er saknað, þar af fjögurra barna. Ljósmynd/Lögreglan í Nordland

„Tæknimenn frá [rannsóknarlögreglunni] Kripos eru komnir hingað núna, þeir urðu fyrir flugtöfum vegna veðurs en þeir eru að leita í brunarústunum núna,“ segir Kenneth Magnussen, aðgerðastjóri lögreglunnar í Nordland-umdæminu í Noregi, í samtali við mbl.is um stöðu mála eftir að sumarbústaður brann til grunna í Risøyhamn á Andøy í nótt, en fimm er saknað eftir brunann, þar af fjögurra barna.

„Við óttumst það versta er ég hræddur um,“ svarar Magnussen, inntur eftir því hvaða kenningum lögregla vinni út frá um fólkið sem saknað er, en alls dvöldu sex manns í bústaðnum eins og mbl.is greindi frá í morgun. Sjötti maðurinn komst út úr brennandi bústaðnum og hljóp margra kílómetra leið, berfættur og aðeins klæddur þeim fatnaði sem hann svaf í, en farsímasamband á Andøy er takmarkað.

Magnussen segir leit hætt að þeim sem saknað er, annars staðar en í rústum bústaðarins. „Þeirri leit var hætt fyrr í dag þegar hún hafði ekki borið árangur eftir nokkrar klukkustundir með þyrlu og mannskap á jörðu niðri,“ segir hann og bætir því við að líklegast væri að fólkið hefði gert vart við sig með einhverjum hætti hefði það komist út.

„Við höfum ekkert í höndunum sem bendir til að neitt saknæmt hafi átt sér stað þarna, Kripos hefur á að skipa tæknifólki sem býr yfir sérfræðiþekkingu á brunarannsóknum sem við höfum ekki hér og þess vegna óskum við eftir aðstoð þaðan í tilfellum á borð við þetta,“ útskýrir aðgerðastjórinn. Nú sé staðan sú að lítið sé hægt að aðhafast annað en að bíða þess hvað kemur út úr leit rannsóknarlögreglunnar á vettvangi.

Kirkjur í Svolvær og Henningsvær í sveitarfélaginu Vågan opnuðu dyr sínar í dag, en börnin sem saknað er gengu í skóla þar. Kristine Sandmæl prófastur sagði norskum fjölmiðlum í dag að íbúarnir væru með böggum hildar yfir því að börnin væru hugsanlega látin.

„Fólk getur komið og kveikt á kerti og fengið að ræða við einhvern óski það þess. Eða bara fengið að tylla sér hér í þögn. Hingað er hægt að koma og vera nálægt fólki sem er snortið af þessum atburði,“ sagði Sandmæli við norska ríkisútvarpið NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert