Varð fyrir árás krókódíls

AFP

Ástrali komst í hann krappann í dag þegar hann varð fyrir árás krókódíls. Að sögn lögreglu var maðurinn, sem er 44 ára gamall, að synda í Placid-stöðuvatninu, skammt frá Cairns, þegar hann var bitinn af krókódíl í höfuðið.

Maðurinn brást skjótt við og tókst að spenna í sundur kjaft krókódílsins og losa þannig höfuðið úr gini hans.

Að sögn sjúkraflutningamanns synti maðurinn að bakkanum og tókst að skríða á þurrt land. Þar beið hann, tiltölulega rólegur, eftir því að sjúkrabíllinn kæmi. Maðurinn er með minni háttar áverka á höfði, öxl og hendi en slapp furðu vel úr þessum aðstæðum. Eða eins og sjúkraflutningamaðurinn segir: „Hann er mjög heppinn maður.“

Vitað er af krókódílum á þessum slóðum en afar sjaldgæft er að þeir ráðist á fólk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert