Ghislane býður fram ríkisborgararéttinn

Réttarhöld yfir Ghislaine Maxwel, fyrrum unnustu Jeffrey Epstein, standa nú …
Réttarhöld yfir Ghislaine Maxwel, fyrrum unnustu Jeffrey Epstein, standa nú yfir. AFP

Ghislane Maxwell, sem sökuð hefur verið um að vera vitorðsmaður barnaníðingsins Jeffreys Epsteins, hefur boðist til þess að gefa breskan og franskan ríkisborgararétt sinn upp á bátinn í þeirri von um að losna úr gæsluvarðhaldi í New York.

Maxwell er grunuð um að hafa tekið þátt í mansali ásamt Epstein og hún sögð hafa aðstoðað hann við að lokka til sín stúlkur undir lögaldri og fá þær til þess að stunda vændi. Maxwell hefur vísað þessum ásökunum á bug en réttað verður í málinu í júlí næstkomandi, að því er BBC greinir frá.

Í réttarskjölum kemur fram að Maxwell sé tilbúin að gefa breska og franska ríkisborgararéttinn upp á bátinn til þess að eyða öllum grun um að hún muni flýja til Frakklands eða Bretlands. Er þetta hennar þriðja tilraun til þess að losna úr varðhaldi.

Lögmenn hennar hafa einnig óskað eftir því að eignir hennar og Epsteins yrðu varðveittar á reikningi sem sæti eftirliti, svo að hún geti ekki notað fjármunina til þess að flýja Bandaríkin.

Situr í fangelsi í Brooklyn

Maxwell hefur setið í gæsluvarðhaldi í Brooklyn í New York allt frá því hún var handtekin í júlí síðastliðinn en þá var hún stödd í glæsihýsi sínu utanbæjar í New Hampshire. 

Ghislane Maxwell er dóttir viðskiptamógúlsins Róberts Maxwell og var í sambandi með auðjöfrinum Jeffrey Epstein á tíunda áratugnum. Kynnti hún hann fyrir ýmsum persónum og leikendum þeirra tíma, þar á meðal Bill Clinton og Andrési Bretaprinsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert