Metmagn kókaíns fannst í Þýskalandi og Belgíu

Þýsk og belgísk lögregluyfirvöld hafa lagt hald á 23 tonn af kókaíni sem flutt var um borð í gámum til landanna tveggja frá Paragvæ. Aldrei áður hefur verið lagt hald á svo mikið magn kókaíns í einu í Evrópu, segir í tilkynningu frá þýskum tollayfirvöldum.

Þýska lögreglan lagði hald á 16 tonn af kókaíni þann 12. febrúar síðastliðinn í hafnarborginni Hamburg og belgíska lögreglan lagði hald á 7,2 tonn af kókaíni í Antwerpen í Belgíu stuttu síðar. 

Hollenskur karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í Hollandi í gær í tengslum við bæði málin. 

Í fyrra lögðu evrópsk lögregluyfirvöld hald á samanlagt 102 tonn af kókaíni. Magnið sem fannst í þessum mánuði er því, eins og fyrr segir, það mesta sem evrópsk lögregla hefur lagt hald á í tengslum við eitt mál frá upphafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert