35 kíló af ull náðust af Baarack

Ástralska kindin Baarack komst í langþráða snyrtingu á dögunum eftir að hafa vafrað um óbyggðir Viktoríu í fimm ár. Alls náðust 35 kíló af ull af hrútnum sem var orðinn illa lyktandi og afar drullugur. „Ég trúði því ekki að það væri kind undir allri þessari ull,“ sagði Pam Ahem starfsmaður dýrathvarfsins Edgar's Mission Farm Sanctuary þar sem hlúð var að hrútnum eftir dvölina í óbyggðum.

Í myndskeiði AFP fréttaveitunnar má sjá þegar Baarack var leystur úr prísund ullarinnar.

Nafnið Baarack er leikur að orðum þar sem vísað er til Bandaríkjaforsetans fyrrverandi en eins og margir vita byggir orðaforði enskumælanda kinda á orðinu „baa“ en ekki „me“ eins og hjá íslenskum ám. Við bætist eitt „a“ og snöggt gúgl leiðir í ljós að þónokkrar ær hafa verið nefndar í höfuðið á Barack Obama með þessum hætti.

Þarna undir leynist Baarack en líklega er ágætt að sjá …
Þarna undir leynist Baarack en líklega er ágætt að sjá okkar hrút einungis í gegnum netið. Lyktin af ullarhlassinu var að sögn afar svæsin. AFP

Baarack er af Merino-kyni en hjá þeim getur óheftur ullarvöxtur ollið verulegum vandkvæðum. Hætta er á ofhitnun og þá sækja ýmis óæskileg kvikindi á borð við flugur og maðk í óþefinn sem byggist upp í ullinni. Þeirra bíða því yfirleitt grimm örlög úti í náttúrunni séu þær ekki rúðar reglulega. 

Kílóin 35 eru þó ekki það mesta sem náðst hefur af einni kind sem tekist hefur að forðast smalana. Fyrir sex árum náðust 41 kíló af hrútnum Chris, met sem verður væntanlega seint slegið. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir vinsældir Baaracks á TikTok þar sem hann hefur rakað inn áhorfum í milljónavís.

Baarack stillir sér upp fyrir ljósmyndara að lokinni snyrtingu.
Baarack stillir sér upp fyrir ljósmyndara að lokinni snyrtingu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert