Tasmaníutígurinn líklega enn útdauður

Á þessari mynd má sjá tasmaníudjöful. Ekki má rugla honum …
Á þessari mynd má sjá tasmaníudjöful. Ekki má rugla honum saman við tasmaníutígurinn sem hér um ræðir. Margra áratuga gamalt myndband af tasmaníutígrinum má sjá neðar í fréttinni. GREG WOOD

Nick Mooney, dýralífssérfræðingur hjá Tasmanian Museum and Art Gallery, hefur vísað á bug fullyrðingum þess efnis að hinn útdauði tasmaníutígur hafi sést nýlega. Segir hann líklegra að þeir sem tilkynntu um það hafi séð lítið pokadýr sem á ensku kallast pademelon. The Guardian greinir frá. 

Fyrr í vikunni sögðust samtök hollvina tasmaníutígursins í Ástralíu eiga í fórum sínum ljósmyndir af þremur slíkum, sem lifðu blómsældarlífi í norðausturhluta Tasmaníu-eyjar. Vakti tilkynningin upp mikla spennu meðal dýravina, enda hefur Tasmaníutígurinn verið talinn útdauður í villtri náttúrunni frá árinu 1930 og aldauða frá árinu 1936.

Forrest Galante, bandarískur sjónvarpsmaður hjá Animal Planet rásinni, kynti undir spennunni þegar hann deildi myndbandi á Twitter og sagði að hér væri hugsanlega um að ræða „dýralífsenduruppgötvun aldarinnar,“ en að bíða þyrfti staðfestingar frá Mooney.  

Mooney skoðaði ljósmyndirnar og segir í tilkynningu frá safninu  hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að miðað við líkamsbyggingu dýranna á myndunum þá sé mjög ólíklegt að um tasmaníutígra sé að ræða. 

Líkt og fyrr sagði hefur Tasmínutígurinn verið talinn aldauða frá árinu 1936, en þá drapst síðasti tasmaníutígurinn, Benjamin, í Hobart-dýragarðinum. Síðan þá hafa reglulega komið upp tilfelli þar sem fólk telur sig hafa séð tígurinn en það hefur aldrei fengið staðfest. 

Hægt er að fræðast um tasmaníutígurinn á Vísindavefnum. 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert