Faraldurinn notaður til að stjórna blaðamönnum

Samtök erlendra blaðamanna í Kína segja stjórnvöld nota faraldurinn til …
Samtök erlendra blaðamanna í Kína segja stjórnvöld nota faraldurinn til þess að hindra aðgang þeirra. AFP

Kínversk stjórnvöld nota kórónuveirufaraldurinn sem enn eitt tæki til þess að stjórna blaðamönnum. Samkvæmt samtökum blaðamanna hafa stjórnvöld þar í landi notað faraldurinn sem afsökun til að fylgjast enn betur með og hindra aðgang blaðamanna enn frekar.

Þrátt fyrir að tökum hafi verið náð á faraldrinum í Kína haldi stjórnvöld áfram að lofsama eigin viðbrögð við útbreiðslu faraldursins, sem hófst síðla árs 2019, og þaggi niður gagnrýnisraddir.

Samkvæmt Samtökum erlendra blaðamanna í Kína (e. Foreign Correspondents' Club of China) hefur áróðursvél kínverskra stjórnvalda ítrekað hindrað erlenda blaðamenn í rannsókn þeirra og umfjöllun um kórónuveirufaraldurinn í Kína.

Þannig hafi strangar takmarkanir ítrekað verið notaðar til að stjórna blaðamönnum, sem margir hverjir hafi neyðst til að yfirgefa rannsóknarferðir sínar algjörlega tómhentir, ýmist eftir að hafa verið þvingaðir í sóttkví eða einfaldlega verið vísað úr landi.

42% blaðamanna sem rætt var við sögðu að þeim hefði verið vísað af vettvangi eða neitað um aðgang af öryggisástæðum, sem hafi ekki átt við rök að styðjast.

Þá segja samtökin að blaðamönnum hafi verið gert að sæta hinum ýmsu takmörkunum sem ekki næðu yfir aðra og að heilbrigðisstarfsfólk í Wuhan hafi verið yfirheyrt og varað við því að ræða við blaðamenn.

Þá hafi enginn þeirra 150 blaðamanna sem tilheyra samtökunum sagt að aðstæður blaðamanna í Kína hafi batnað, þriðja árið í röð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert