Einn skammtur öruggur fyrir aldraða og veitir vernd

Bóluefni AstraZeneca ætti að veita 80,4%, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar.
Bóluefni AstraZeneca ætti að veita 80,4%, samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar. AFP

Einn skammtur af Covid-19 bóluefni AstraZeneca og Oxford háskóla virðist veita rúmlega 80% vernd gegn alvarlegum veikindum af völdum Covid-19, samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknar sem birt var í dag.

Niðurstöðurnar, sem enn á eftir að ritrýna, bætast við fyrri vísbendingar sem gefa til kynna að bóluefnið sé bæði öruggt og skilvirkt fyrir eldra fólk.

Rannsóknin ætti því að auka traust fólks á efninu, en yfirvöld í Þýskalandi, Frakklandi, á Spáni og víðar hafa lagst gegn því að gefa fólki sem er yfir 65 ára aldri Covid-19-bóluefni fyrirtækisins. Þá ákváðu Danir að sprauta eldri íbúa landsins ekki með efninu.

Meiri vernd en með Pfizer

Rannsóknin sem hér er vísað til var framkvæmd í Bristol-háskóla. Aldraðir sjúklingar, 80 ára og eldri, tóku þátt í henni en þeir höfðu allir verið lagðir inn á spítala í Bretlandi með öndunarfærasjúkdóma. Allir sjúklingarnir voru skimaðir fyrir kórónuveirunni, og var þeim síðan skipt í tvo hópa.

Rannsakendur komust að því að níu af 36 Covid-19-sjúklingum höfðu fengið bóluefni AstraZeneca, og 53 af 90 þeirra sem greindust neikvætt.

Munurinn á hlutfalli þessara hópa, eftir að hafa fengið eina bóluefnissprautu frá AstraZeneca, gaf til kynna að skilvirkni efnisins væri 80,4%, að sögn vísindamannanna.

Ein sprauta af Pfizer-bóluefninu veitti hins vegar 71,4% vernd, samkvæmt sömu rannsókn. Bæði bóluefni AstraZeneca og Pfizer voru þróuð þannig að hver einstaklingur þarf tvær sprautur af efninu. Í tilviki Pfizer líða þrjár vikur á milli skammta en í tilfelli AstraZeneca líða þrír mánuðir á milli skammta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert