Balladur sýknaður í París

Édouard Balladur og François Gerard Marie Léotard.
Édouard Balladur og François Gerard Marie Léotard. AFP

Édouard Balladur, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands, var í dag sýknaður af ákæru um spillingu en varnarmálaráðherra í ríkisstjórn hans, François Gerard Marie Léotard, var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.

Balladur var ákærður fyrir að hafa notað ólöglegar þóknanir í tengslum við vopnasölusamninga til að fjármagna forsetaframboð hans árið 1995. Balladur, sem er 91 árs að aldri, bauð sig fram til forseta þvert á það sem hann hafði áður sagt, árið 1995. Í fyrri umferðinni hafnaði hann í þriðja sæti á eftir þeim Jacques Chirac og Lionel Jospin. Chirac var kjörinn forseti í seinni umferðinni. 

Léotard, sem var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Balladur, var dæmdur fyrir hlutdeild í mútumálinu sem tengdist sölu á vopnum. Auk tveggja ára skilorðsbundins fangelsis er hann dæmdur til að greiða 100 þúsund evrur í sekt. 

Hvorugur þeirra var viðstaddur dómsuppkvaðninguna en fyrr í vikunni var Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir spillingu við sama dómstól, Cour de Justice de la République, en dómstóllinn hefur það verkefni að dæma í málum ráðherra og fyrrverandi ráðherra sem grunaðir eru um spillingu í starfi. 

Balladur og Léotard, sem eru báðir hægrimenn líkt og Sarkozy, voru ákærðir árið 2017 fyrir hlutdeild í misnotkun á almannafé í tengslum við sölu á kafbátum og freigátum til Sádi-Arabíu á árunum 1993 til 1995. 

Ásakanir á hendur tvímenningunum komu fram þegar rannsókn hófst á sprengjutilræði í Karachi í Pakistan árið 2002 sem beindist gegn rútu sem flutti franska verkfræðinga. 15 létust í árásinni, þar á meðal 11 verkfræðingar sem unnu við kafbátasamninginn. Talið var í byrjun að vígasamtökin al-Qaeda hefðu staðið á bak við tilræðið. Það breyttist hins vegar þegar leið á rannsóknina og talið að hún hafi verið hefnd vegna stöðvunar mútugreiðslna í tengslum við vopnasamningana. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert