„Getum sameinast í ömurleikanum“

Clara Sys Vejen Fog er 17 ára gömul og situr …
Clara Sys Vejen Fog er 17 ára gömul og situr nú 10. bekk aftur eftir að hafa dottið út úr skóla vegna þunglyndis árið 2019. Henni þykir mun bærilegra að fá að stunda skólann í fjarnámi að heiman og tilheyrir hópi ellefu prósenta Dana sem samkvæmt könnun lýðheilsustofnunar eiga bjartari daga í faraldrinum en fyrir hann. Ljósmynd/Úr einkasafni

Ellefu prósent Dana segja líðan sína betri í kórónufaraldrinum en fyrir hann. Þetta er niðurstaða nýrrar könnunar dönsku lýðheilsustofnunarinnar Statens Institut for Folkesundhed, SIF, sem skartar titlinum Áhrif Covid-19 á andlega líðan, heilbrigði og starfsumhverfi (d. Betydningen av Covid-19 krisen for mental sundhed, helbred og arbejdsmiljø).

Clara Sys Vejen Fog frá Gram á Suður-Jótlandi er ein þeirra sem upplifað hafa bjartari daga í faraldrinum en fyrir hann. „Nú þarf maður ekki að ganga um og þykjast vera glaður,“ útskýrir Fog fyrir danska ríkisútvarpinu DR.

Skilja hvað það er að hafa það skítt

Fog, sem er 17 ára gömul, var hætt að treysta sér til að mæta í skólann vegna þunglyndis árið 2019, þegar hún var í 10. bekk. „Nú skilur fólk betur hvernig það er að hafa það skítt,“ segir Fog sem kveður einnig mjög þægilegt að geta notað faraldurinn sem átyllu til að sniðganga ýmislegt sem hana fýsi ekki að taka þátt í.

Hún segir að hefði faraldurinn hafist fyrr hefði hann jafnvel orðið til þess að hún hefði ekki horfið frá námi í hitteðfyrra. „Ég vildi óska þess að þá [2019] hefði meiri fjarkennsla verið í boði,“ segir Fog sem nú situr 10. bekkinn aftur, en í allt öðru umhverfi. Nú nægir henni að fara á fætur og setjast við tölvuna á heimili sínu. Þá er hún mætt í kennslustund í skólanum.

„Nú getum við öll sameinast í ömurleikanum,“ segir hún um þjóðfélagsástandið á veirutímum og kveðst finna til mun meiri samkenndar. „Það er langt síðan ég hef upplifað að við séum öll á sama báti, en nú erum við það,“ segir Fog, en viðurkennir þó að auðvitað þyki henni miður hve margir eigi nú um sárt að binda.

Fimmtungur metur líðan sína verri

Og þannig er það auðvitað þrátt fyrir ellefu prósentin sem faraldurinn hefur einhvern veginn létt undir með. Hópurinn sem glímir við dimmari daga í faraldrinum en fyrir hann er stærri. Honum tilheyrir fimmtungur svarenda.

Þetta kemur Lau Caspar Thygesen, prófessor í faraldsfræði við Syddansk Universitet og rannsakanda við SIF, ekki á óvart, eðlilega hafi aðstandendur könnunarinnar, en hann er einn þeirra, reiknað með að kórónufaraldurinn hefði veruleg neikvæð áhrif á líðan fólks. Sé flett í gegnum könnunina má enda greina þungar áhyggjur svarenda. Þannig höfðu 22% miklar áhyggjur af að einhver sem þau þekktu veiktist, 16% miklar áhyggjur af að veikjast sjálf og 23% miklar áhyggjur af að smita aðra.

Thygesen kveður hins vegar hafa komið á óvart að svo mikið sem 11% hafi fundið einhvers konar huggun í skugga veirunnar. „Svo virðist sem fólk með minni menntun taki þessu betur og þeir sem þjáðust af þunglyndi fyrir faraldurinn hafa sumir hverjir átt örlítið bjartari daga,“ segir hann við DR og vísar til svarenda á borð við framangreinda Clöru Fog.

„Um það bil fimmtungur, 21%, telur líðan sína verri í faraldrinum en fyrir hann og við sjáum að andleg líðan beggja kynja og allra aldurshópa hefur versnað,“ segir Thygesen í samtali við Berlingske og kveður næsta skref sitt og samstarfsfólksins við SIF að greina hvaða þjóðfélagshópar það séu sem faraldurinn bindi hve þyngstan myllustein um háls.

DR

Berlingske

Videnskab.dk

Niðurstöður könnunarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert