Leita strokukrókódíla í Suður-Afríku

Nílarkrókódílar.
Nílarkrókódílar. Ljósmynd/Wikipedia/Dewet

Lögregla og náttúruverndaryfirvöld leita nú ungra nílarkrókódíla sem sluppu fyrr í þessari viku úr krókódílabúgarði í Cape Winelands, sem er staðsett um 150 kílómetra austur af Höfðaborg. Fjöldi krókódíla sem sluppu er ekki þekktur. Krókódílarnir eru hættulegir mönnum.

Þegar hafa 34 krókódílar frá 1,2 - 1,5 metrar að lengd verið fangaðir samkvæmt CapeNature, náttúruverndaryfirvöldum í Suður-Afríku. 

Petro van Rhyn, talskona CapeNature, sagði í samtali við fréttastofu AFP að á búgarðinum væru um fimm þúsund krókódílar en töluvert færri en það hafa sloppið. „Það er ekkert rakningarkerfi svo það er erfitt að segja til um þetta,“ sagði Petro van Rhyn.

Flest strokudýrin, sem ræktuð eru fyrir skinn sitt, eru talin hafa forðað sér í á sem liggur nálægt búgarðinum, Breede-á, og gróður sem liggur yfir ánni komi í veg fyrir að þau finnist.

Samkvæmt CapeNature hafa gildrur með beitu verið lagðar en hafa ekki borið mikinn árangur þar sem nóg er af æti í ánni. 

Sjö krókódílar voru fangaðir í aðgerðum með átta köfurum á vegum lögreglunnar í gærkvöldi. Sex í viðbót voru aflífaðir í gærkvöldi.

Nílarkrókódílar eru mikil náttdýr og væri hentugasti tíminn til að leita að þeim þannig á nóttunni, sem síðan skapar nýjar áskoranir fyrir leitarteymi vegna lélegs skyggnis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert