„Þýski Harvey Weinstein“ ákærður fyrir nauðgun

Leikstjórinn Dieter Wedel hefur verið ákærður fyrir nauðgun.
Leikstjórinn Dieter Wedel hefur verið ákærður fyrir nauðgun. AFP

Saksóknarar í Þýskalandi hafa ákært þýska sjónvarpsleikstjórann Dieter Wedel fyrir nauðgun. Málið er sagt það fyrsta þar, þar sem þekktur einstaklingur er ákærður vegna uppljóstrana í kjölfar MeToo-byltingarinnar.

Wedel, sem er 81 árs gamall, er sakaður um að hafa nauðgað leikkonu á hótelherbergi þegar hún var í áheyrnarprufu árið 1996. Ásakanirnar komu fyrst fram árið 2018, skömmu eftir að MeToo-byltingin hófst með frásögnum af ofbeldi kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein.

Málið varð síðar að pólitísku hitamáli eftir að í ljós kom að yfirmenn ríkisreknu sjónvarpsstöðvarinnar, Saarländischer Rundfunk, hylmdu yfir með Wedel á sínum tíma og héldu áfram samstarfi sínu við hann.

Leikstjórinn segist alsaklaus og telur að ákæran sé sé sprottin af því að hann hafi þegar verið fundinn sekur af dómstóli götunnar. Síðan árið 2018 hefur hann þó verið sakaður um fleiri nauðganir og annars konar kynferðislegt ofbeldi af nokkrum konum.

Wedel hefur verið kallaður „þýski Harvey Weinstein“ í þýskum fjölmiðlum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert