Norsk kvennafangelsi hálftóm

Bredtveit-kvennafangelsið í Ósló þar sem þriðji hver klefi stendur auður. …
Bredtveit-kvennafangelsið í Ósló þar sem þriðji hver klefi stendur auður. Forstöðumaður fangelsisins segir lokuð landamæri líklega eiga hlut að máli en ástandið sé þægilegt, fangaverðir geti sinnt föngunum betur og þar með séu færri öryggisgæsluklefar í notkun. Ljósmynd/Wikipedia.org/C. Hill

„Ég hef ekki upplifað annað eins þau 30 ár sem ég hef starfað innan refsivörslukerfisins,“ segir Doris Bakken, forstöðumaður Bredtveit-kvennafangelsisins í Ósló, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Umræðuefnið er fjöldi fanga í norskum kvennafangelsum sem hefur ekki verið minni um árabil auk þess sem engin kona er á biðlista eftir afplánun í Noregi.

Bakken segir sveiflur í fjölda kvenfanga alvanalegar en hins vegar hafi hún aldrei upplifað að svo fáar konur afpláni dóma innan múra Bredtveit-fangelsisins og heldur ekki að tímabil fárra fanga hafi staðið svo lengi, síðan í ágúst í fyrra hefur kvenföngum í afplánun fækkað umtalsvert.

Í Bredtveit er rekin hámarksöryggisgæsludeild þar sem plássin eru 45. Íbúarnir þar sitja af sér langa dóma, að meðaltali sjö ár, brotin eru manndráp, ofbeldi og fíkniefni. Þar stendur þriðji hver klefi tómur og sömu sögu er að segja af almennu deildinni þar sem öryggisstigið er lægra og dómarnir styttri. Samtals notar Doris Bakken nú 71 prósent afplánunarrýmis fangelsis síns sem er söguleg staða.

„Kannski hefur kórónuveirufaraldurinn eitthvað með þetta að gera,“ segir Bakken.

890 karlar á biðlista

Aðra sögu er að segja af karlkyns afbrotamönnum í Noregi, þar eru 890 manns á biðlista eftir að komast í afplánun og segir Jan-Erik Sandlie, aðstoðarforstjóri fangelsismálastofnunar Noregs, Kriminalomsorgsdirektoratet, að brugðist hafi verið við þessu með því að breyta afplánunarrýmum kvenna í Verdal-fangelsinu tímabundið í rými sem karlar geti afplánað í og fyrir dyrum standi að gera sömu breytingar á fleiri fangelsum.

Sandlie tekur í sama streng og Bakken og bendir á lokuð landamæri Noregs sem eina ástæðu færri fanga, til dæmis afpláni nú færri útlendingar í Noregi auk þess sem færri sitji í gæsluvarðhaldi nú en endranær.

Hann telur þetta þó ekki skýra kynjahallann, óvanalegt sé að engar konur séu á biðlista eftir afplánun. „Þetta var öðruvísi fyrir tveimur árum,“ bendir Sandlie á.

Rólegheitin þægileg

Hér ber þó að líta til þess að kynjahlutföll norskra fanga eru býsna ójöfn, samkvæmt tölum norsku hagstofunnar SSB sitja að meðaltali á þriðja hundrað konur í fangelsum landsins á hverjum tíma á móti 3.500 karlmönnum.

Doris Bakken í Bredtveit-fangelsinu segir rólegheitin þægileg, þannig hafi fangaverðirnir mun meira svigrúm til að sinna einstökum föngum sem skili sér í því að notkun öryggisgæsluklefa hefur minnkað. Hún telur ástandið þó varla komið til að vera.

„Það er á hreinu að þegar landamærin opnast og fleira fólk verður á ferli úti í samfélaginu eykst álagið hjá okkur aftur,“ segir forstöðumaðurinn að lokum.

NRK

NRKII (fangaverðir þurfa að sótthreinsa klefana)

Advokatbladet (200.000 tímar í einangrun árið 2020 vegna faraldursins)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert