Öflugar sprengingar særðu 500 hið minnsta

Sjálfboðaliðar reyna bjarga fólki úr rústunum.
Sjálfboðaliðar reyna bjarga fólki úr rústunum. Skjáskot úr umfjöllun TVGE

Að minnsta kosti 15 eru látnir og yfir 500 eru særðir eftir að öflugar sprengingar urðu á herstöð í Miðbaugs-Gíneu. Þessu greindi Teodoro Obiang Nguema, forseti landsins, frá fyrr í kvöld og sagði að gáleysi hermanna væri um að kenna. Talið er að dýnamít og önnur sprengiefni hafi verið geymd á óviðeigandi hátt.

Sprengingarnar áttu sér stað í borginni Bata. Þar búa um 800 þúsund manns á litlu svæði, margir í mikilli fátækt. Á myndskeiðum frá vettvangi mátti sjá sjálfboðaliða færa særð börn úr rústum bygginga undir þykkum svörtum reykjarmekki.

Sjúkrahúsrúm eru af skornum skammti í Bata og fjölmiðlar ytra greina frá því að særðir liggi margir hverjir eftir aðhlynningu á göngum sjúkrahúsa.

Talið er að sprengingarnar hafi ekki verið færri en fjórar og að sú fyrsta hafi orðið í byggingu þar sem sérsveit hersins og herlögreglan býr. Varaforseti Miðbaugs-Gíneu og sonur forsetans, Teodoro Nguema Obiang Mangue, sem er yfir varnar- og öryggismálum landsins, var mættur á vettvang skömmu eftir að ósköpin dundu yfir.

Rétt er að vara við myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

 

Sprengingarnar voru að minnsta kosti fjórar talsins.
Sprengingarnar voru að minnsta kosti fjórar talsins. Ljósmynd/Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert