Frestun í dómsmáli gegn Chauvin

Mótmælendur fyrir utan dómshúsið.
Mótmælendur fyrir utan dómshúsið. AFP

Vali hefur verið frestað á kviðdómi í dómsmálinu gegn Derek Chauvin, hvítum fyrrverandi lögreglumanni, sem er ákærður fyrir að hafa banað George Floyd, sem var dökkur á hörund. 

Dauði Floyds vakti heimsathygli og leiddi til mikilla mótmæla víða um heim eftir að myndband af síðustu andartökum hans var birt á netinu.

Dómarinn í málinu ákvað að fresta því að hefja val á kviðdómnum, að minnsta kosti til morguns. Hundruð mótmælenda voru fyrir utan dómshúsið í Minneapolis þegar ákvörðunin var tekin.

AFP

Saksóknarar óskuðu eftir frestuninni vegna biðar eftir úrskurði áfrýjunardómstóls um hvort hægt verður að ákæra Chauvin fyrir morð af þriðju gráðu. Hann hefur þegar verið ákærður fyrir morð af annarri gráðu og manndráp.

Chauvin, sem var sleppt lausum gegn tryggingu, mætti í dómsalinn í dag í dökkum jakkafötum og með grímu.

Þjóðvarðliðar við öllu búnir fyrir utan dómshúsið.
Þjóðvarðliðar við öllu búnir fyrir utan dómshúsið. AFP

BBC hefur það eftir sérfræðingum að með því að bæta við ákærunni um morð af þriðju gráðu aukist líkurnar á því að hann verði fundinn sekur.

Búist er við því að valið á kviðdómnum taki um þrjár vikur. Aðalmeðferðin á að hefjast 29. mars. Yfir 370 manns verða mögulega fengnir til að bera vitni í málinu.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert