Sendur í leyfi eftir ummæli um Melaniu Trump

Clark kallaði Melaniu Trump verðlaunaeiginkonu, eða trophy wife upp á …
Clark kallaði Melaniu Trump verðlaunaeiginkonu, eða trophy wife upp á enskuna. AFP

Stewart-Allen Clark, baptistaprestur í Missouri í Bandaríkjunum, hefur verið sendur í leyfi eftir að hann lét umdeildar athugasemdir um útlit kvenna falla. Clark tjáði sig til dæmis um forsetafrúna fyrrverandi, Melaniu Trump, sem hann lýsti sem „epískustu verðlaunaeiginkonu (e. trophy wife) allra tíma“.

Í predikun sinni gaf Clark eiginkonum ráð til þess að eiginmenn þeirra myndu ekki „truflast“ af öðrum konum. 

Kirkjudeild baptista hefur áminnt Clark fyrir ummæli hans en 22 mínútna myndskeið af predikun hans var birt á Facebook. Þar hefur það verið skoðað 22.000 sinnum. Í myndskeiðinu sést hann nota þekkt jörm (e. meme) sem sýna annars hugar kærasta í því skyni að segja konum að „gefa honum ekki ástæðu til að líta í kringum sig“.

Frétt BBC

„Kannski eruð þið þátttökuverðlaun

Clark segir kirkjugestum að það sé „mjög mikilvægt“ fyrir karla að hafa fallega konu á handleggnum og spyr fólkið: „Hvers vegna er það svo að oft eftir að konur gifta sig sleppa þær sér alveg?“

„Sjáið til, ég er ekki að segja að hver einasta kona geti verið epískasta verðlaunaeiginkona allra tíma, eins og Melania Trump, ég er alls ekki að segja það,“ segir Clark á sama tíma og mynd af forsetafrúnni fyrrverandi birtist á skjá fyrir aftan hann.

„Flestar konur geta ekki verið verðlaunaeiginkonur, en þið vitið... kannski eruð þið þátttökuverðlaun,“ sagði Clark.

Þá gagnrýndi hann konur fyrir að klæðast þægilegum fötum eins og jogging-göllum og náttfötum. Jafnframt gaf hann konum ráðleggingar um förðun, hárgreiðslu, fataval og kynferðislega hegðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert