Netverslun sektuð um 350 milljarða

Á lager Alibaba. Fyrirtækið er langstærsta netverslunin í Kína.
Á lager Alibaba. Fyrirtækið er langstærsta netverslunin í Kína. AFP

Kínverska fyrirtækið Alibaba, stærsta netverslun heims, hefur verið sektað um jafnvirði 350 milljarða íslenskra króna fyrir samkeppnisbrot í heimalandinu. Samkeppnisyfirvöld í Kína segja að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína í nokkur ár. Sektin nemur um 4% af tekjum Alibaba árið 2019.

Í yfirlýsingu frá Alibaba segir að fyrirtækið sætti sig við úrskurðinn og muni laga starfsemi sína að honum. Greiningaraðilar hafa sagt að sektin sýni að Kínverjar hyggist beita sér gegn netfyrirtækjum sem stjórnvöld telja of stór.

Þótt Alibaba sé kannski ekki ýkjaþekkt utan heimalandsins, er fyrirtækið risastórt í Kína. Auk þess að vera langstærsta netverslun landsins sér það einnig um netgreiðslur, vefhýsingu og fleira.

Tólf stórfyrirtæki voru í síðasta mánuði sektuð fyrir brot á samkeppnisreglum, þeirra á meðal fyrirtæki í eigu ByteDance, eiganda samfélagsmiðilsins TikTok. Af öðrum má nefna Tencent, Baidu, Didi Chuxing og SoftBank.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert