Lét eins og ekkert hefði gerst

Lögregla á vettvangi.
Lögregla á vettvangi. AFP

Lögreglan í París hefur útilokað að skotárás við sjúkrahús í borginni fyrr í dag hafi verið hryðjuverk. Einn lést í árásinni og annar er alvarlega særður. Af skýrslum vitna að dæma bendir allt til þess að árásin hafi beinst sérstaklega að hinum látna. 

Árásarmaðurinn skaut nokkrum skotum við Henry Dunant-sjúkrahúsið, sem er rekið af Rauða krossinum. 

„Ég heyrði sex skot þegar ég var að borða hádegismat um klukkan 13:30 (11:30 að íslenskum tíma),“ sagði umsjónarmaður nærliggjandi byggingar við AFP-fréttaveituna.

Heyrði skothljóðin greinilega

„Ég fór um leið út og sá ungan svartan mann á jörðinni, með andlitið niður, fyrir utan sjúkrahúsið. Hann var kannski 20 eða 30 ára og hann var þegar dáinn,“ sagði umsjónarmaðurinn. 

Kona slasaðist alvarlega í árásinni, en hún starfar sem öryggisvörður á sjúkrahúsinu. 

Saksóknarar segja að málið sé rannsakað sem manndráp og tilraun til manndráps. Ekki er talið að um hryðjuverk sé að ræða, né heldur árás sem beindist sérstaklega að sjúkrahúsinu þar sem nú er bólusett við kórónuveirunni. Þá er talið að konan sem slasaðist hafi orðið fyrir skoti óvart. 

Eigandi veitingahúss sem er á móti sjúkrahúsinu heyrði skothljóðin greinilega. 

„Ég sneri mér við og sá mann í hettupeysu skjóta. Svo sá ég hann nálgast mann sem lá á jörðinni og skjóta hann tvisvar sinnum í höfuðið til að klára hann,“ sagði eigandinn. „Skotmaðurinn gekk í burtu með ótrúlegri ró, eins og ekkert hefði gerst.“ 

Árásarmaðurinn yfirgaf vettvang á mótorhjóli og hefur enn ekki fundist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert