Kröfur upp á 900 milljónir dala

Dráttarbátar draga Ever GIven sömmu eftir að það losnaði í …
Dráttarbátar draga Ever GIven sömmu eftir að það losnaði í Súez-skurðinum. AFP

Egyptar munu kyrrsetja og leysa til sín hið risavaxna gámaflutningaskip sem stíflaði Súez-skurðinn þar til japanskir eigendur skipsins greiða 900 milljónir bandaríkjadala kröfur. Það samsvarar um 114 milljörðum króna. BBC greinir frá. 

Eitt tryggingafélaganna sem tryggir eigendur Ever Given skipsins, UK Club, segir að yfirvöld við Súez-skurðinn hafi hafnað tilboði þess um að semja um kröfur. 

Lýsir fyrirtækið kröfunni, sem tekur meðal annars til 300 milljóna dala björgunarbónuss, og 300 milljóna dala kröfu vegna skaða á orðspori Súez-skurðarins, sem óhóflega hárri og órökstuddri að miklu leyti.

Ever Given er nú við akkeri í Great Botter Lake, fyrir miðjum Súez-skurði. Skipið, sem er 400 metra langt og 220 þúsund tonn, festist á hlið í skurðinum 23. mars. Atvikið skýrðist að einhverju leyti af miklum vindum og sandstormi sem hafði áhrif á skyggni. 

Sex dögum síðar tókst að losa skipið, eftir björgunaraðgerðir sem tóku til öflugra dráttarbáta og dýpkunarpramma. Talið er að um 30 þúsund rúmmetrum af sandi og aur hafi verið mokað til að leysa skipið.

Yfir 400 bátar og skip biðu þess að sigla í gegnum skurðinn á meðan Ever Given sat fast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert