Yngra fólk fyllir sjúkrarúmin

Mynd frá sjúkrahúsi í Þýskalandi. Heilbrigðisstarfsmenn segja ástandið erfitt.
Mynd frá sjúkrahúsi í Þýskalandi. Heilbrigðisstarfsmenn segja ástandið erfitt. AFP

Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins er í hæstu hæðum í Þýskalandi en þar hafa smit breska afbrigðis veirunnar breiðst hratt út og orðið til þess að yngra fólk hefur veikst alvarlega. 

„Þriðja bylgjan er greinilega í gangi,“ sagði Thomas Marx, framkvæmdastjóri lækninga, á sjúkrahúsinu í Freising í Bæjaralandi í Þýskalandi. 

Af 14 gjörgæslurúmum sjúkrahússins liggja fimm Covid-19 sjúklingar. Þeir sem hafa lagst inn undanfarið eru yngri en í fyrri bylgjum, flestir á milli 40 og 60 ára, að sögn Marx.

„Þeir þurfa oft að vera í öndunarvélum og eiga síðan í langri baráttu við eftirköst Covid-19,“ sagði Marx í samtali við AFP og bætti því við að fjórði hver sjúklingur sem lagst hafi inn lifi ekki af bardagann við Covid-19. 

Sumir neita að grípa til aðgerða

Þýskaland komst tiltölulega óskaddað út úr fyrstu bylgju faraldursins en hið sama er ekki hægt að segja um þriðju bylgju. Fjöldi sjúklinga á aldrinum 35 til 49 ára hefur „aukist mjög“ upp á síðkastið, að sögn Lothar Wieler, yfirmanns þýsku sýkingavarnastofnunarinnar RKI.

Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir frá heilbrigðisstarfsfólki um alvarleika ástandsins, eru yfirvöld flækt í harðar stjórnmálaumræður vegna hafta sem sett hafa verið á til þess að lágmarka útbreiðslu faraldursins. 

Þó Angela Merkel kanslari hafi beitt sér fyrir hertum aðgerðum til þess að halda fólki heima og forðast smit, neita sumir valdamiklir svæðisleiðtogar að taka þátt í þeim. 

„Þegar ég sé að aðgerðirnar duga ekki er erfitt að takast á við það,“ sagði Marx.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert