Xi Jinping tekur þátt í loftslagsráðstefnu

Xi Jinping, forseti Kína, í kínverska þinginu.
Xi Jinping, forseti Kína, í kínverska þinginu. AFP

Xi Jinping, forseti Kína, mun taka þátt í rafrænni ráðstefnu um loftslagsmál ásamt Frökkum og Þjóðverjum að því er kemur fram í tilkynningu frá Peking í dag.

John Kerry, sérstakur ráðgjafi stjórnar Joe Bidens í loftslagsmálum, heimsótti nýlega Sjanghæ í tilraun til að hvetja Kínverja, sem menga mest allra þjóða, til dáða í loftslagsmálum. 

Kerry er nú staddur í Kína og fundar með kínverskum kollegum sínum fram á laugardag. Um er að ræða fyrstu opinberu heimsókn frá nýrri stjórn Bandaríkjanna til Kína. 

Ekki stendur til að Kerry fundi með Xi Jinping í þessari ferð en fundir hennar hafa hingað til farið fram á bak við luktar dyr. 

Tilkynning frá Peking þess efnis að Xi Jinping myndi taka þátt í loftslagsráðstefnu „samkvæmt boði Emmanuel Macron, Frakklandsforseta“ kom mörgum í opna skjöldu. Ráðstefnan fer fram á föstudaginn. 

Litið hefur verið á ferð Kerrys sem tækifæri stórveldanna, Kína og Bandaríkjanna, til að leggja pólitíska spennu til hliðar og einblína á mögulegt samstarf í loftslagsmálum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert