Minnast þeirra 80 þúsund sem hafa látist

Angela Merkel, fráfarandi Þýskalandskanslari.
Angela Merkel, fráfarandi Þýskalandskanslari. AFP

Haldin verður opinber minningarathöfn í Þýskalandi í dag til að heiðra þá 80 þúsund sem látist hafa þar í landi af völdum kórónuveirunnar. Fráfarandi Þýskalandskanslari, Angela Merkel, og Þýskalandsforseti, Frank-Walter Steinmeier, munu verða viðstödd athöfnina sem fram fer í Kirkju Vilhjálms keisara í Berlín, höfuðborg landsins.

Vegna samkomutakmarkana geta færri en vilja verið við athöfnina og því verður sýnt beint frá henni í þýska ríkisútvarpinu.

„Sem forseti trúi ég því að mikilvægt sé fyrir okkur að staldra við og kveðja með viðhöfn þá sem látist hafa í faraldrinum, ekki aðeins þá sem létust vegna veirunnar heldur einnig þá sem létust einir og ekki í faðmi ástvina vegna samkomutakmarkana,“ sagði Steinmeier þegar hann tilkynnti að athöfnin skyldi haldin.

„Ég elska þig, mamma kemur fljótt aftur“

Margir hafa þurft að kveðja ástvini sína í gegnum myndsímtal vegna sóttvarnaðgerða í Þýskalandi, eins og um heim allan. Steinmeier fundaði nýlega með nokkrum sem það hafa þurft að gera.

Michaela Mengel er ein þeirra, en hún lýsti því fyrir Steinmeier, á tárvotum fundi þeirra, hvernig það var að geta ekki verið við hlið dóttur sinnar á dánarbeðinum.

„Ég sá hana síðast á aðfangadag jóla þegar mér var gert að yfirgefa sjúkrahúsið, þar sem hún lá. Hún horfði á mig stórum augum með súrefnisgrímu fyrir vitunum,“ sagði Mengel við Steinmeier.

Mengel bætti við að dóttir hennar hefði ekki getað talað og því hefði hún sagt við hana: „Bless, ástin mín. Ég elska þig, mamma kemur fljótt aftur.“

Leiðtogar einstakra þýskra sambandsríkja hvöttu í dag íbúa landsins til þess að kveikja á kertum og setja út í glugga um helgina.

Við viljum vera meðvituð um þann missi sem mörg okkar hafa orðið fyrir, en á sama tíma viljum við finna von og styrk hvert í öðru, sögðu þeir í sameiginlegri yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert