Mótmæla hertum sóttvarnareglum

AFP

Þúsundir mótmælenda eru samankomnar við þýska þinghúsið þar sem þingmenn greiða atkvæði um frumvarp til laga sem veita ríkisstjórn landsins auknar heimildir þegar kemur að sóttvarnareglum.

Þriðja bylgja kórónuveirufaraldursins geisar nú í Þýskalandi en samkvæmt breyttum lögum er ætlunin að stöðva stöðug átök milli alríkisríkisins og 16 sambandsríkja vegna sóttvarnareglna. Með lagabreytingunni verður hægt að loka skólum og koma á útgöngubanni að næturlagi. 

AFP

Fleiri þúsund mótmælendur voru komnir saman í miðborg Berlínar í morgun, vopnaðir fánum og kröfuspjöldum. Margir þeirra voru grímulausir. Um tvö þúsund lögreglumenn fylgjast með mótmælunum. Hiti hefur færst í mótmælin og beitti lögregla táragasi á mótmælendur fyrir skömmu í þeirri von að dreifa hópnum. Lögreglan segist hafa handtekið sjö er þeir reyndu að ráðast til atlögu við lögreglumenn. 

Með lagafrumvarpinu er veitt heimild til þess að stíga á neyðarhemil þegar nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu sjö daga fer yfir 100 í einstökum sambandsríkjum. Það þýðir lokanir og útgöngubann að næturlagi. Sem og verður skólum gert að skipta yfir í fjarkennslu þegar nýgengi fer í 165 smit á hverja 100 þúsund íbúa. Í fyrri útgáfu frumvarpsins var gert ráð fyrir að nýgengið þyrfti að fara í 200 til þess að gripið yrði til þess að loka skólum. 

AFP

Aðeins eitt sambandsríki er með færri en 100 smit á hverja 100 þúsund íbúa og sjö eru með 165 og fleiri, þar á meðal tvö fjölmennustu ríkin, Bæjaraland og Norður-Rín Vest­fal­ía (Nor­dr­hein-West­fa­len). 

Frumvarpið hefur verið harðlega gagnrýnt, ekki síst áætlanir um útgöngubann í landi sem glímir enn við minningar af einræði nasista og kommúnista. Frumvarpið gerir ráð fyrir útgöngubanni frá klukkan 22 og að undantekningar verði gerðar fyrir þá sem stunda langar gönguferðir og hlaup en þeim er heimilt að skila hér heim til miðnættis. Til þess að frumvarpið nái fram að ganga þarf einfaldan meirihluta í neðri deildinni (Bundestag) fyrst og síðan í efri deild (Bundesrat) á morgun. 

AFP

Hingað til hafa sóttvarnareglur verið ákveðnar með samningafundum milli Angelu Merkel kanslara og leiðtoga sambandsríkjanna 16. Í mörgum tilvikum hafa ríkin ekki farið fyllilega eftir þeim reglum sem settar hafa verið. 

Samkvæmt tölum Robert Koch-stofnunarinnar (RKI) greindust 24.884 ný smit síðasta sólarhringinn og 331 lést af völdum veirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert