Fimm konur myrtar á þremur vikum

Sænska lögreglan.
Sænska lögreglan. AFP

Fimm konur hafa verið myrtar af körlum í Svíþjóð undanfarnar þrjár vikur. Í öllum tilvikum eru ódæðismennirnir tengdir konunum á einhvern hátt. Morðin hafa vakið hörð viðbrögð og er þess krafist að yfirvöld grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi í Svíþjóð.

Sænska ríkisútvarpið hefur tekið saman upplýsingar um morðin en það fyrsta var framið í Höör 30. mars. Þar hafði verið lýst eftir 18 ára gamalli stúlku sem hvarf í Höör á Skáni. Stúlkan fannst síðar látin og var maður sem þekkti hana handtekinn og hnepptur í varðhald grunaður um morðið. Hann hefur játað aðild og er talið að morðvopnið sé fundið. 

Laugardaginn 2. apríl fannst kona alvarlega slösuð í íbúð í Huddinge, skammt frá Stokkhólmi. Hún lést síðar af völdum sára sinna á sjúkrahúsi en sambýlismaður hennar er í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa drepið hana. 

Ráðist var á konu á umferðarmiðstöð í Linköping að morgni 15. apríl og lést hún síðar af völdum áverkanna. Maður um fertugt var síðar handtekinn grunaður um morðið en þau höfðu verið í sambandi. 

Kona um tvítugt lést í íbúð í Älta þann 16. apríl og var 25 ára gamall maður handtekinn á staðnum fyrir morðið. Að sögn lögreglu þekktust þau vel en konan hafði verið beitt hrottalegu ofbeldi.

Í miðborg Alvesta var ráðist á konu af 35 ára gömlum karlmanni síðdegis 17. apríl og lést konan á staðnum. Maðurinn réðst á konuna vopnaður hnífi og stakk hana ítrekað. Hann hefur játað að hafa stungið konuna, sem hann þekkti en þau höfðu ekki átt í sambandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert