Einkaleyfi bóluefna verði afnumin

Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti. AFP

Allt stefnir í að alþjóðasamfélagið muni innan skamms svipta stærstu lyfjafyrirtæki heims einkaleyfum af bóluefnum sínum gegn kórónuveirunni, í það minnsta tímabundið.

Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti í dag að ríkisstjórn hans styddi nú áformin, en Bandaríkin hafa verið helsta vígið gegn þeirri róttæku hugmynd, sem notið hefur stuðnings meðal ýmissa fátækari ríkja heims, sem og forstjóra Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO).

Katherine Tai, fulltrúi Bandaríkjanna hjá WTO, tilkynnti um sinnaskipti ríkisstjórnarinnar á miðvikudagskvöld en Biden hafði þá legið undir pressu innan Demókrataflokksins.

„Við eigum í alþjóðlegri heilbrigðiskrísu, og óvenjulegar aðstæður kalla á óvenjulegt viðbragð,“ sagði Tai. Bætti hún því við að samningaviðræður um afléttingu einkaleyfanna myndu taka tíma enda væri málið flókið og samþykki allra 164 ríkja WTO, þar með talið Íslands, þarf til að aflétta einkaleyfum.

Almannahagsmunir teknir fram yfir

Tedros Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, lýsti ánægju sinni með ákvörðun Bandaríkjastjórnar í færslu á Twitter. Þar sagði hann hana til marks um forystu Bandaríkjanna á sviði heilbrigðisvísinda og að að almannahagur væri hafður að leiðarljósi.

Hlutabréf í helstu lyfjafyrirtækjum, sem framleiða bóluefni, féllu hins vegar í kjölfar tíðindanna eins og við var að búast. Mest féll hlutabréfaverðið í Moderna um 6,1% en hjá Johnson&Johnson var lækkunin aðeins 0,4%.

Hagsmunasamtök lyfjaframleiðenda í Bandaríkjunum, sem umrædd lyfjafyrirtæki eiga aðild að, brugðust ókvæða við en í yfirlýsingu segja samtökin að ákvörðun Biden-stjórnarinnar sé fordæmalaus og muni grafa undan alþjóðlegu viðbragði gegn veirunni.

Þá óttast fyrirtækin að hér sé sett fordæmi til framtíðar. Þótt neyðin sé einkar áberandi nú í kórónuveirufaraldrinum fer því nefnilega fjarri að togstreita milli hagsmuna lyfjafyrirtækja og almannahagsmuna, einkum í fátækari löndum, sé ný af nálinni.

Auka mætti framboð hinna ýmsu lyfja með því að afnema einkaleyfi þeirra, en lyfjaframleiðendur benda á að slíkar ákvarðanir væru til þess fallnar að draga úr hvata til frekari fjárfestinga í lyfjabransanum og þannig koma niður á almenningi til langs tíma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert